Arkítektar bankahrunsins
2.1.2010 | 11:47
DV birtir í áramótablaði sínu lista yfir sérfræðinga sem störfuðu fyrir útrásarvíkingana en voru ekki alltaf áberandi í umfjöllun um starfsemi þeirra. Það skal strax tekið fram að ég hef enga sérstaka trú á trúverðugleika þess sem fram kemur í DV og forðast að lesa það blað. Það er fyrir sálina eins og óhollur matur fyrir líkamann.
Sem dæmi um ruglingslega framsetningu og umfjöllun DV um sérfræðinga sem unnu á bakvið tjöldin fyrir útrásarvíkingana er að þar má finna nöfn manna eins og Jóns Ásgeirs, Pálma Haraldssonar, Karls Wernerssonar, Hannesar Smárasonar, Björgólfs Thors, Ólafs Ólafssonar, og Bakkabræðra. Allt eru þetta einstaklingar sem voru áberandi í alþjóðavæðingunni. Listinn er því blanda af svo kölluðum "útrásarvíkingum" og sérfræðingum er fyrir þá störfuðu.
Það sem vekur athygli mín er hvaða nöfn eru ekki á listanum. Þar eru t.d. ekki nöfn Bjarna Ármannssonar, Sigurjóns í LB, né Hreiðars og Sigurjóns frá Kaupþingi. DV hefur eflaust sínar ástæður fyrir því en reynslan hefur kennt mér að sjaldan gerist eitthvað svona fyrir tilviljun. Þar er annað hvort um að kenna óvönduðum vinnubrögðum eða meðvituð slagsíða í umfjöllun.
Annað sem vekur athygli mín er menntun þeirra sem DV telur að beri ábyrgð á bankahruninu. Þar kemur fram að:
- 3 höfðu ekki lokið háskólanámi
- 5 eru endurskoðendur
- 10 eru lögfræðingar eða lögmenn
- 4 eru með hagfræðimenntun
- 7 eru með viðskiptafræðimenntun
- 3 eru verkfræðingur
- 1 er markaðsfræðingur
Því hefur gjarnan verið haldið fram, óverðskuldað að ég tel, að það hafi fyrst og fremst verið viðskiptafræðingar sem komu hér öllu á vonarvöl. Listinn sýnir að vissulega hefur einn og einn viðskiptafræðimenntun, enda kæmi verulega á óvart ef fólk sem sérhæfir sig í viðskiptum væri ekki áberandi þar, en margir eru lögmenn!
Samt sem áður hefur engum dottið í hug að kenna lögfræði um efnahagshrunið á Íslandi enda er það álíka gáfulegt og að kenna viðskiptafræði, hagfræði eða verkfræði um það. Ef efnahagshrunið er einhverjum að kenna þá eru það tilteknir einstaklingar sem bera ábyrgð á því en ekki hin fræðilega menntun sem þeir hafa orðið sér úti um.
Hafa skal hið fornkveðna í huga að góð menntun gerir gott fólk betra. Býr hins vegar ekki til gott fólk!
Athugasemdir
Rétt Guðlaugur, menntunin sem slík er ekki sökudólgurinn, það er eins og með byssuna, það er ekki byssan sem er hættuleg, það er nefnilega maðurinn á bakvið hana, eins er með þann menntaða hann hefur kunnáttuna til að nota menntunina, hvort sem er til góðs eða ills.
Hörður Einarsson, 2.1.2010 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.