Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Við óvenjulegar aðstæður...

...þarf að grípa til óvenjulegra aðgerða.

Það má öllum vera ljóst að þær aðstæður sem nú eru hér á landi eru óvenjulegar. Reyndar má segja að ástandið sl. 4-5 ár hafi verið óvenjulegt, jafnvel óeðlilegt. Atvinnulífið var drifið áfram af háu gengi krónunnar og nægu aðgengi að ódýru fjármagni. Þetta tvennt er horfið og nokkuð augljóst að atvinnulífið og heimilin í landinu munu bíða skaða af.

Margir hafa gert mistök. Ekki bara bankamenn, svo kallaðir útrásarvíkingar og stjórnmálamenn. Margir stjórnendur gerðu einnig mistök sem og einstaklingar. Þetta hefur þau áhrif að mörg fyrirtæki og heimili horfa fram á mikla erfiðleika næstu vikur og mánuði.

Því er ekki forgangsmál að finna þá sem gerðu MESTU mistökin. Það þarf að bíða seinni tíma. Það sem skiptir höfuðmáli nú er að tryggja atvinnustig í landinu og þar með afkomu heimilana. Margt þarf að gera fyrir fyrirtækin en einnig þarf að grípa til aðgerða sem snúa að heimilunum. Eitthvað hefur verið gert en þær aðgerðir eru takmarkaðar. Til að atvinnulífið virki þarf margt annað en fjármagn þó mikilvægt sé. Fyrirtækin þurfa starfsfólk sem af fullu afli vinnur að þeim verkefnum sem fyrirtækið hefur með að gera. Fólk sem hefur miklar fjárhagsáhyggjur er ekki með fullan huga við vinnuna og þar með ekki eins góðir starfsmenn og annars.

Ein leið sem hægt er að fara, og er óvenjuleg, er sú að Ríkið leysi til sín öll gengistryggð húsnæðislán og endurláni heimilum í íslenskum krónum. Þá eru heimilin komin í "eðlilegt" ástand og þá líklegra að fólk sjái fram úr efnahagslegri stöðu sinni og geti þar með einbeitt sér að því að sinna sínum skyldum.
Annað sem ætti að gera er að gefa fólki kost á að leysa út séreignarlífeyrissparnað sinn. Það er nánast réttlætismál.


Ég var vanhæfur!

Fyrir nokkru auglýsti Viðskipta- og hagfræðideild starf lektors í markaðsfræði við deildina. Nokkrir sóttu um stöðuna og var ég tilnefndur af deild í matsnefnd sem fulltrúi fræðasviðsins.
Þegar fyrir lá hverjir væru umsækjendur kom fljótlega fram það sjónarmið að hugsanlega væri ég vanhæfur til að fjalla um umsóknir umsækjenda þar sem ég hafði skrifað grein með einum þeirra. Ég skoðaði máli vel, en það er alla jafna þess sem talinn er vanhæfur að taka ákvörðun um eigið vanhæfi, og í framhaldi af því ákvað ég að draga mig til baka úr matsnefndinni. Ég taldi þetta rétt og taldi óþarft að gefa því sjónarmiði byr undir báða vængi að ég væri með matinu að leggja mat á eigin störf. Því tók minn varamaður við því hlutverki.

Í ljósi atburða síðustu vikna hef ég leitt hugann að því hvort hugsanlegt sé að eitthvað af því fólki sem er að fást við lausn efnahagsvandans sé hugsanlega vanhæft til þess.
Eftir að hafa skoðað málið vel fæ ég ekki betur séð en að nokkuð margir, vegna hagsmunatengsla, séu í raun vanhæfir til að koma að þeirri vinnu sem blasir við okkur næstu ár. Það á ekki síst við þegar kemur að því að rannsaka orsakir efnahagshrunsins.
Þetta fólk þarf að horfa í eigin barm, leggja mat á það hvort hagsmunatengsl geti hugsanlega skaðað heildarhagsmuni og ef svo er, draga sig í hlé.

 Til þess þarf fólk auðvitað að vera ærlegt! 


Stundum gott að vera útundan!

Ég hef stundum látið fara í taugarnar á mér þegar stjórnvöld og ýmsir hagsmunaaðilar taka ákvörðun um að leita ekki álits eða ráðgjafar Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Við deildina starfa margir af helstu sérfræðingum landsins á sviði viðskipta og dálítið einkennilegt að stjórnvöld skuli ekki nýta sér þá þekkingu betur en raun ber vitni.

Veftímaritið T24 rifjaði upp að hópur sérfræðinga valdi um síðustu áramót ICESAVE reikningana sem bestu viðskipti íslendinga árið 2007. Þeir sem komu að valinu voru:

 Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auður Capital, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Ágúst Einarsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, Ólafur Ísleifsson, lektor við HR, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, Jafet Ólafsson hjá VBS fjárfestingabanka, Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, Ásta Dís Óladóttir, dósent á Bifröst, Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, Hafliði Helgason, fyrrverandi ritstjóri Markaðarins, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Gunnar Ólafur Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, Friðrik Már Baldursson, prófessor í HR, Hrund Rudólfsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Milestone og formaður stjórnar SVÞ, Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja. 

Eins og sjá má er ekki einn einasti frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íalands. Stundum er gott að segja minna en meira.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband