Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Fréttabörnin!

Stundum velti ég því fyrir mér hvernig blaðamannastéttin er að þróast. Aftur og aftur gerist það að ég hrekk við þegar fjölmiðill virðist setja "barn" í það að fjalla um erfið og alvarleg mál sem krefjast mikillar reynslu af hendi blaðamannsins. Auðvitað eru þetta ekki börn, aðeins ungt fólk sem virðist hafa litla reynslu. Svo er kannski þessi upplifum mín fyrst og fremst til marks um það að ég er að eldast. Hver veit?

Mér finnst þó eitthvað vanta í stétt blaðamanna. Svo virðist sem settur hafi verið hámarksaldur í stéttinni og sýnist mér það sérstaklega áberandi í sjónvarpi. Hvar eru eiginlega "gömlu" góðu blaðamennirnir? Og hvar er undirbúningurinn? Og hvernig stendur á því að spurningarnar sem bornar eru upp bjóða viðmælandanum upp á það að svara með Já-i eða Nei-i?

Ágætt dæmi um þetta er umfjöllun í sjónvarpi (RÚV og Stöð2) á yfirheyrslu yfir Sigurði Einarssyni. Það var eiginlega ekki hægt að heyra spurningu af viti? Sumar voru settar fram sem Já eða Nei spurningar (sem ég hélt að væri afgreitt í fjölmiðlafræði 101), þ.e. svarið gat verið Já eða Nei og sumar voru með augljóst svar, virtust illa ígrundaðar og einkenndust miklu frekar af gjammi en að um væri að ræða mikilvægar spurningar sem gott væri fyrir almenning að fá svör við!

Kannski er þetta ósanngjarnt hjá mér og kannski var ég sérlega pirraður yfir þessari frétt. Mér finnst samt sem áður eiginlega ekkert gagn af svona blaðamennsku. Ef þetta er birtingarmynd fjórða valdsins, sem fjölmiðlar vilja stundum skilgreina sig, þá líst mér ekki á!  


Samkeppni af hinu góða!

Nokkuð skiptar skoðanir eru um nýframkomið frumvarp landbúnaðarráðherra um breytingar á búvörulögum. Þannig hefur Samkeppniseftirlitið lagst gegn frumvarpinu þar sem að allar líkur séu fyrir því að skaði bæði neytendur og bændur á meðan að nefndarmaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þar sem frumvarpið er til umfjöllunar, telur að samkeppni eigi ekki við á þessum markaði.

Það má eflaust færa fyrir því rök að á sumum mörkuðum eigi samkeppni ekki við. Þá er hins vegar mikilvægt að skilgreina nokkuð nákvæmlega forsendurnar fyrir því. Það þarf einnig að átta sig vel á því við hvað er átt þegar talað er um samkeppni og fyrir hvern hún er. Að sama skapi þarf að átta sig á því hvenær markaður verður markaður.

Til eru nokkuð margar skilgreiningar á samkeppni. Algengt er að tala um samkeppni út frá atvinnugrein annars vegar og samkeppni út frá þörfum hins vegar. Fyrri skilgreiningin er dæmigerð rekstrarhagfræðileg nálgun á samkeppnishugtakinu og gengur út frá því að aðilar sem framleiða sömu vöru eða veita sömu þjónustu, séu í samkeppni.  Seinni skilgreiningin er dæmigerð markaðsfræðileg nálgun á samkeppni og gengur út frá því að þeir aðilar sem fullnægja sömu þörfum, séu í samkeppni.

Þetta er ágætt að hafa í huga þegar tekin er afstaða til þess hvort samkeppni á mjólkurmarkaði sé æskileg eða ekki. Er samkeppni af hinu góða, eins og stundum er sagt, eða ekki? Til að geta svarað því þarf að svara þeirri grundvallarspurningu fyrir hvern mjólkuriðnaðurinn er? Ef við skilgreinum hagsmuni greinarinnar fyrst og fremst út frá þeim sem starfa í greininni, þ.e. út frá framleiðendum, þá kann vel að vera að samkeppni eigi ekki við. Á móti má benda á að samkeppni hefur m.a. þann kost að hún á það til að auka samkeppnishæfni framleiðenda. Því gæti samkeppni komið sér vel.
Ef við skilgreinum hagsmuni greinarinnar einnig út frá neytendum má vel færa fyrir því rök að samkeppni sé til bóta. Út frá sjónarhóli neytenda er samkeppni til staðar þegar neytendur hafa val. Ef samkeppni á mjólkurmarkaði verður til þess að góðum vörum á samkeppnishæfu verði fjölgar þá er hún til góða fyrir neytendur. Það þarf þá að vera tryggt. Samkeppni má ekki bara hafa þann tilgang að gefa fleirum tækifæri á að starfa á tilteknum markaði.

Stundum er eins og samkeppnisviljinn sé fyrst og fremst drifinn áfram af hagsmunum framleiðenda. Þá krefjast aðilar, í nafni samkeppni, að fá að taka þátt í tiltekinni starfsemi. Oftar en ekki er eins og hagsmunir neytenda séu fyrir borð bornir í slíkri samkeppnisvæðingu. Hvort þetta á við um mjólkuriðnaðinn skal ósagt látið. Til að fá úr því skorið þyrfti svo margt að breytast í landbúnaðarmálum hér á landi. Það er til að mynd alls ekki víst að verð á mjólkurafurðum muni lækka þó svo að aðilari mættu framleiða mjólk utan kvóta. Það er heldur ekki víst að fjölbreyttni muni aukast né heldur gæði. Það kann hins vegar vel að vera að það fyrirkomulag sem við lýði er sé of dýru verði keypt.

Eins og sjá má er þetta ekkert sérstaklega einfalt mál og ólíklegt að niðurstaðan verði þannig að öllum líki. Tvennt er þó ágætt að hafa í huga. Að öllum lýkindum býr mjólkuriðnaðurinn við meiri samkeppni en menn vilja vera láta. Mjólk er ekki bara í samkeppni við mjólk heldur einnig við aðra drykki svo sem eins og safa og gos. Mjólkurvörur eru því í samkeppni við aðrar matvörur á matvörumarkaði. Hitt er að mér hefur alltaf þótt það dálítið undarleg afstaða að vilja skapa sér samkeppnisforskot með því að meina öðrum að taka þátt. Það mun ætið bitna á neytendum og skerða samkeppnishæfni viðkomandi greinar. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband