Hættulegir stjórnmálamenn?

Eva Joly er merkileg manneskja. Ég les og hlusta með athygli á það sem frá henni kemur en er ekki endilega sammála öllu. Eva virðist þó hafa munninn fyrir neðan nefið og vera ágætlega tengd sem er eftirsóknarvert í þeirri stöðu sem við erum í nú. Í Fréttablaðinu í dag, bls. 10-11, er fréttaviðtal við Evu. Þar setur hún fram athyglisverða skoðun en í lok greinarinnar er eftirfarandi haft eftir henni:

"Það versta í heiminum eru atvinnustjórnmálamenn, til dæmis fólk sem hefur bara sinnt stjórnmálum í þrjá eða fjóra áratugi. Slíkt fólk er hættulegt".

 Svo mörg voru þau orð.

Hér er eitt og annað óljóst hjá Evu (eða blaðamanni). Hvenær verða stjórnmálamenn hættulegir? Er það þegar þeir eru búnir að vera mjög LENGI, eða er það þegar þeir gera EKKERT ANNAÐ en að vera stjórnmálamenn? Eða er það þegar þetta tvennt fer saman? Og hvað þýðir það nákvæmlega þegar stjórnmálamenn eru hættulegir?

Sem betur fer virðist þetta vandamál ekki eiga við hér á landi! Stór hluti þingmanna er á fyrsta eða öðru kjörtímabili sínu. Einhverjir myndu kalla það óheppilegt reynsluleysi.

Ætli það geti verið hættulegt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég veit nákvæmlega hvað hún á við og ég átta mig ekki á því að þú skiljir það ekki

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.8.2009 kl. 16:16

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég held að Eva hafi rétt fyrir sér.  Nýir þingmenn ættu örugglega auðveldara með að mynda samstöðu við málefnin sem brenna á almenning. 

Gamlir refir í skotgrafahernaði sem eru fyrir löngu búnir að missa tengsl við almenning en hafa fyrst og fremst tengingu við stjórnkerfið og elítuna í landinu.

Magnús Sigurðsson, 14.8.2009 kl. 07:24

3 identicon

Ung manneskja byrjar á unglingsárum í pólitík, fetar sig upp metorðastigan innan sinnar stjórnmálahreyfingar smátt og smátt. Inn á þing og að lokum í ráðherradóm ef allt gengur sem skyldi.

Hér er oft um áratuga langt ferli að ræða, og stóran hluta þess varið inn á þingi.  Það hefur m.a. í för með sér að viðkomandi verður oftar en ekki gerilsneyddur allri þekkingu á atvinnulífinu sem slíku(nema sem áhorfandi), hvað þá almennum rekstri og þekkingu á fjármálalegum málefnum. (jú það þurfa kannski ekki allir að vera eins.)[skoðið CV alþingismanna og kannið hvaða reynslu þeir hafa, hvað er t.d. langt síðan Steingrímur og Jóhanna unnu ærlegt handtak?]

Hins vegar er það hættulega sem gerist fyrir ungan stjórnmálamann er lítur fram á vegin í átt til ráðherradóms í framtíðinni. Sú umbun/skilyrðing(conditioning) sem felst í því að vera áhættufælin. Forðast að taka ákvarðanir í lengstu lög, þar sem ákvörðun felur mögulega í sér áhættu að hafa "rangt fyrir sér" sem setur pólitískan carreer í hættu. Það virkar í atvinnustjórnmálum að taka ekki erfiðar ákvarðanir og draga mál á langinn, atvinnustjórnmál verðlauna ekki skilvirkni og hraða ákvarðanatöku, því miður. Þrátt fyrir að samfélagið þarfnist þess.

Það að hafa alþingi fullt af slíku fólki meira og minna sem hræðist hraða og oft sársaukafulla ákvarðanatöku, er beinlínis hættulegt fyrir samfélag sem sífellt verður hraðara, en stjórnmálalífið stendur í stað.

Hvernig myndi t.d. almannavarnarráð fúnkera með slíku fyrirkomulagi? Það væru allir dauðir löngu áður en stjórnendur tækju einhverjar ákvarðanir.....!

Að vera með slíka foringja í forsvari út á vígvelli efnahagshruns hefur líka sýnt sig að vera stórhættulegt fyrir almenning í landinu. Ef viðkomandi stjórnmálamenn hefðu verið í hlutverki stjórnenda í fyrirtækjum á hinum almenna markaði, væri fyrir löngu búið að reka þá fyrir skort á skilvirkri ákvarðanatökum.

Hvað gerir t.d. Steingrím, Jóhönnu, Bjarna eða Sigmund að hæfum stjórnendum? Hvaða reynsla eða meðmæli?

Atvinnustjórnmálamenn = ákvarðanafælni = HÆTTA! fyrir samfélagið.

Inn á þing vantar fólk sem hefur ekki persónulega langtímahagsmuni af því að hanga inn á þingi áratugum saman. 

Óskar Nafnleyndar (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband