Hver og hver og vill og verður!

Nýja ríkisstjórnin er ekki öfundsverð. Það er eiginlega alveg sama hvað gert verður, alltaf verða einhverjir óánægðir og benda á að einmitt það sem gert var, eða ekki, hafi verið það sem átti ekki að gera eða skorti. Nú, eins og gjarnan gerist í erfiðum aðstæðu, mun koma í ljós að vinir eru færri en maður ætlar, hagsmunir þeim mun ríkari.

Því miður verður að teljast líklegt að efnahagshruninu verði með einum eða öðrum hætti velt yfir á almenning. Enda er óljóst hvert annað ætti að velta því! Þá er mikilvægt að teknar séu ákvarðanir sem eru réttar, mögulegar og sanngjarnar. Hér er ríkisstjórninni vandi á höndum. Það sem einum þykir rétt, kann öðrum að finnast rangt og það sem einum þykir sanngjarnt, kann öðrum að þykja ósanngjarnt.

Til að bæta gráu ofan á svart eru kosningar framundan. Þeir sem lifað hafa nokkur kjörtímabil vita að ekki eru endilega skynsamlegustu ákvaranirnar teknar síðustu vikurnar fyrir kosningar. Getur það verið að nú verði breyting á? Kannski eru utanþingsráðherrarnir merki um breytta hætti. Kannski er það bara liður í vinsældaöfluninni? Leið til að róa lýðinn!

Hvernig sem er þá eru verkefnin næg fyrir hina nýju ríkisstjórn. Það er mikilvægt að á næstu vikum séu teknar margar réttar ákvarðanir. Því er einnig mikilvægt að aðrir stjórnmálamenn láti það ekki eftir sér að þvælast fyrir að óþörfu. Það er einfaldlega allt of mikið í húfi nú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband