Frostavetur framundan?

Nú liggur fyrir að efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar virðist ekki ætla að ganga eftir. Flestir mælikvarðar efnahagsmála ýmist standa í stað eða hafa þróast í neikvæða átt. Mörg fyrirtæki munu ekki þola ástandið mikið lengur með tilheyrandi áhrifum á atvinnuástand.

Á sama tíma standa stjórnmálamenn í einhverju óskiljanlegu pólítísku þrefi. Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hve minnihluti á hverjum tíma, skiptir þá ekki máli hver er við stjórn, getur lagst lágt til að skora pólitísk mörk. Með þessu er ég ekki að segja að allt sé rétt og gott sem núverandi ríkisstjórn er að gera. Það er afar fátt sem er rétt og gott við það ástand sem nú ríkir. Það er hins vegar mikilvægt að menn taki höndum saman við að vinna okkur út úr vandanum. Samvinna er ekki áberandi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það sem verra er er að samvinna er heldur ekkert sérstaklega áberandi milli stjórnarflokkanna. Það er auðvitað alveg undarleg staða en um leið mjög skaðleg fyrir framvindu mála.

Ég veit satt best að segja ekki hvað er rétt og best að gera. Til þess vantar mig miklu meiri upplýsingar um stöðu mála. Tel jafnvel líklegt að jafnvel þó svo að ég hefði allar nauðsynlegar upplýsingar þá myndi ég ekki heldur vita hvað væri best og rétt að gera. Vandinn er einfaldlega mjög viðamikill og flókinn. Það ágæta fólk sem valist hefur til forystu er því ekki öfundsvert. Það er eflaust mjög auðvelt að draga upp önnur sjónarhorn sem draga úr trúverðugleika þeirra aðgerða sem í gangi eru. Það má hins vegar ekki verða markmið í sjálfu sér.

Það sem að mínu viti ætti að gera betur er að upplýsa þjóðina með markvissari hætti. Það er mikilvægt að fá almenning í lið með sér. Það gerist ekki nema að fólk hafi á tilfinningunni að það sé hluti af einhverri aðgerðaráætlun og að verið sé að stefna að skýru markmiði. Leiðin getur verið erfið og okkur getur borið af leið. Það er hins vegar mikilvægt að upplýsa almenning og gera það með viðurkenndum aðferðum. Þessar aðferðir kallast almannatengsl og því miður hef ég séð alltof mörg skólabókardæmi um mistök í stjórnun almannatengsla frá því í október sl. 

Aðalmistökin liggja í því að stjórnendur/stjórnvöld stórlega vanmeta gildi almannatengsla á erfiðleikatímum. Almannatengsl þurfa að vera hluti af lausninni, ekki eitthvað sem maður þarf að gera af því að til þess er ætlast. Þá verður þetta alltaf í skötulíki. 

Öflug almannatengsl eru sérstaklega mikilvæg í því fjölmiðlaumhverfi sem hér er. Fjölmiðlar hér á landi eru fáir og veikir. Það er varla til sá fjölmiðlamaður sem getur fjallað um efnahagsmál svo vit sé í. Það er fyrst og fremst vegna þess að menntun þeirra er oftast á einhverju öðru sviði. Þekking á efnahagsmálum er ekki meðfædd og ekki eins sjálfgefin og menn vilja vera láta. Það þarf að hafa töluvert fyrir því að afla sér grundvallar þekkingar á rekstri og efnahagsmálum. Þá þekkingu hafa fjölmiðlamenn almennt ekki. Þeirra hlutverk verður því oftar en ekki að enduróma það sem að þeim er rétt í stað þess að fjalla um það með gagnrýnum hætti. Niðurstaðan verður því gjarnan ruglingsleg, þversagnarkennd umræða sem gerir ekkert annað en að skapa ótta, óróa og óöryggi á meðal almennings. 

Þetta er það sem sumir kalla að skora pólitísk mörk. Ég er dálítið hneykslaður á því hve sumir stjórnmálamenn eru tilbúnir að ganga langt, að því er virðist í þeim tilgangi einum að láta bera á sjálfum sér og skapa sér einhverja stöðu í eiginn flokki. Því miður held ég að þegar upp er staðið þá verði hátterni sem þetta flokkað sem sjálfsmark. Það er eins og menn átti sig ekki á því hvað er vörn og hvað er sókn í þessu samhengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Í "góðærinu" var nú samt annar, eða fjórði, hver fjölmiðlamaður farinn að fjalla fjálglega um efnahagsmál, þ.e. botna setningarnar hjá blessuðum "greiningadeildunum", en þar voru æðstuprestarnir.

Að því slepptu, þá er alveg harðbannað að fjalla um frostavetur framundan í júlí !

Hildur Helga Sigurðardóttir, 31.7.2009 kl. 14:43

2 identicon

"Samvinna er ekki áberandi milli stjórnar og stjórnarandstöðu" Ertu hissa ? Samfylkingin sveik Sjálfstæðisflokkinn og snéri sér að VG. Eiga Sjálfstæðismenn að styðja slíka stjórn, hverslags vitleysa væri nú það ?

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 23:16

3 Smámynd: Þór Jóhannesson

"Samfyllkingin sveik Sjálfstæðisflokkinn" - vá, hversu miklir flokkshundar geta menn orðið???

Hvað með þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn sveik þjóðina, eða öllu heldur lauga að henni og kom henni á hausinn þegar hann sagðist vera að vinn að hagsmunum hennar sl. 18 ár?

Þór Jóhannesson, 1.8.2009 kl. 00:56

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ef frostavetur kemur...er það svo sannarlega í boði þeirra sem hafa kosið cB og xD seinustu 18 ár, (icesave var samþykkt af framsókn og "sjalfstæðis"flokk?.. 2006)

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.8.2009 kl. 04:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband