Verslunarleyfi

Á vef sýslumanna kemur eftirfarandi fram varðandi það hver og hvenær einhver má stunda verslunaratvinnu:

"Lögreglustjórar gefa ekki lengur út verslunarleyfi svo sem gert var samkvæmt lögum nr. 41/1968. Skilyrði þess að mega stunda verslun á Íslandi eru einungis þau að skrásetja í firma- eða hlutafélagaskrá eftir því sem við á verslun sem stunduð er skv. 1. gr. laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu." (sjá vefur sýslumanna)

Þetta held ég að hafi verið mikið óheilla skref. Mér sýnist að ef umrædd skilyrði væru enn við lýði þá hafi mjög margir fyrirgert rétti sínum til að stunda verslunaratvinnu. (sjá lög nr. 41 frá 1968)

Þrátt fyrir að lagatextinn sé kannski ekki mjög nútímalegur þá sýnist mér andi laganna gagnlegur. Þar kemur t.d. fram um tilgang laganna:

 Tilgangur þessara laga er að tryggja, eftir því sem tök eru á:

  • Að borgararnir eigi völ á sem bestri verslunarþjónustu á hverjum stað og tíma.
  • Að þeir aðilar, sem fást við verslun, séu búnir þeim hæfileikum, að þeir geti uppfyllt skyldur, sem slíkur rekstur leggur þeim á herðar gagnvart viðskiptavinum sínum og samfélaginu.
  • Að verslun geti þrifist í landinu sem atvinnugrein.

 Einnig kemur fram í 4 gr. þau skilyrði sem sá þarf að uppfylla sem veittur er réttur til verslunarrekstrar. Þar má m.a. sjá þetta:

  • Hefur lokið prófi úr verslunarskóla, sem viðurkenndur er af ráðherra, eða hefur aðra menntun, sem ráðherra metur jafngilda. Enn fremur má veita þeim verslunarleyfi, sem um þriggja ára skeið hefur starfað við verslun og að þeim starfstíma loknum sótt sérstakt námskeið í verslunarfræðum, sem ráðherra viðurkennir, og lokið þaðan prófi. Meðan ekki er völ á slíkum verslunarnámskeiðum sem gert er ráð fyrir í þessum tölulið, má veita þeim verslunarleyfi, sem starfað hefur þrjú ár við verslun og sannar með vottorðum vinnuveitenda, að hann hafi vegna starfsreynslu sinnar þá þekkingu á bókhaldi, vörum og lagafyrirmælum, sem varða verslunarrekstur, sem telja má nauðsynlega til að reka verslun. 

 Hér er andi lagatextans sá að nauðsynlegt sé að sá er kemur að verslunarrekstri hafi grundvallarþekkingu á rekstri og viðskiptum. Það kemur einnig fram að mikilvægt sé að viðkomandi hafi óflekkað mannorð og ekki sé hætta á hagsmunaárekstrum.

Ég held að það hafi verið mistök að hverfa frá þessum grundvallarskilyrðum réttar til verslunaratvinnu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband