Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Ímynd Íslands

Nokkuð hefur verið rætt um ímynd Íslands í kjölfar bankahrunsins. Flestir sem um þetta ræða telja að ímyndin hafi skaðast og langan tíma taki að byggja hana upp. Fæstir hafa þó einhverjar mælingar til að styðast við í umræðunni og virðast byggja þessa skoðun sína á tilfinningu og/eða samtölum við þröngan hagsmunahóp. Með þessu er ég ekki að halda fram að ímyndin hafi ekki breyst í kjölfar efnahagshrunsins. Það er mjög líklegt að það hafi gerst.

Ég hef fengist við mælingar á ímynd í nokkur ár. Það er margt í tengslum við ímynd sem þarf að hafa í huga þegar lagt er mat á hana, s.s. eins og hvernig hugtakið tengist öðrum hugtökum eins og skynjun og viðhorfi. Þeir sem vilja kynna sér þetta betur geta lesið greinar á heimasíðunni minni en þar má finna fræðilegt mat á ímynd banka, skóla og stjórnmálaflokka.

Ég og félagi minn og fyrrum nemandi, Gunnar Magnússon, fengum birta grein í ráðstefnuriti Academy of Marketing Science en ráðstefnan var haldin í Osló í júlí sl.  Þar kynnum við niðurstöður rannsóknar á ímynd Íslands meðal ferðamanna á Íslandi sumarið 2008. Þeir sem hafa áhuga á greininni getað séð hana hér undir ritrýndar ráðstefnugreinar. Lengri útgáfu má nálgast á vef Viðskiptafræðistofnunar hér undir útgáfa 2008.

Nú vill svo vel til að verið er að endurtaka þessa rannsókn. Þá gefst tækifæri til að leggja mat á það hvort efnahagshrunið hafi haft einhver áhrif á ímynd Íslands.

 


Stefnuleysi!

Ráðgjafar í kynningarmálum hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir slælega frammistöðu í kynningarmálum erlendis. Þetta getur svo sem verið satt og rétt en ég les/sé/heyri ekki nægilega mikið af erlendum fjölmiðlum til að geta dæmt um það. Reyndar á vinna sem þessi ekkert endilega að snúast um erlenda fjölmiðla heldur miklu heldur erlenda ráðamenn. Sjálfur hef á meiri áhyggjur af frammistöðu stjórnvalda hér heima. Sumir kalla það innra markaðsstarf.

Af þessu tilefni var tekið viðtal við upplýsingafulltrúa Forsætisráðuneytisins í fréttum RÚV í gærkveldi. Fréttina má sjá hér.  Upplýsingafulltrúinn, Kristján Kristjánsson, er þaulreyndur blaðamaður og tel ég að þar hafi ráðuneytið náð í góðan mann. Það var hins vegar eitt og annað sem kom fram í þessu viðtali sem olli mér áhyggjum. Upplýsingafulltrúinn segir t.d. að ríkisstjórnin hafi enga kynningarstefnu en í viðtalinu segir hann:

"Ja sko ríkisstjórnin hefur í sjálfum sér enga kynningarstefnu"

Þetta útskýrir Kristján með því að Íslendingar séu svo margir og því sé erfitt að hamra á einhverjum einum skilaboðum. Erfitt sé að samræma skoðanir ráðherra eins og þjóðarinnar allrar.

Hér hlýtur að vera einhver skelfilegur misskilningur á ferðinni. Ef ríkisstjórnin hefur enga kynningarstefnu þá er það mjög alvarlegt. Kynningarstefna er í raun aðeins hluti af heildarstefnu í einhverjum málaflokki og ef hana vantar þá bendir það til þess að stefnan í heild sinni sé frekar götótt.

Ég tek fram að ég hef ekki mikið vit á pólitík. Finnst hún stundun þreytandi og oft ruglingsleg. Ég hef hins vegar kennt stefnumótun og stefnumarkandi hugsun í bráðum 20 ár. Það er út frá þeirri reynslu sem ég hef áhyggjur af því sem fram kom í viðtalinu við Kristján. Því miður held ég að þetta sé rétt hjá honum, þ.e. að ríkisstjórnin hafi enga kynningarstefnu. Það er því miður mjög algengt í opinbera geiranum og reyndar einnig í einkageiranum.
Ástæðan er tvíþætt. Annars vegar þekkingarskortur, þ.e. þeir sem hafa með málaflokkinn að gera vita einfaldlega ekki hvernig á að móta kynningarstefnu og framkvæma áætlun sem byggir á henni og svo hins vegar vanmat á gildi og tilgangi kynningarmála í viðleitni skipulagsheilda við að ná fram markmiðum sínum. 

Ég ætla að taka tvö dæmi úr umræddu viðtali. Þar segir Kristján að ein ástæðan fyrir því að erfitt sé að marka kynningarstefnu sé sú að ríkisstjórnin hafi mismunandi skoðanir á ýmsum málum. Þetta getur út af fyrir sig verið satt og rétt en hefur ekkert með stefnu að gera. Það að skoðanir ráðherra eða þingmanna skuli vera að þvælast fyrir nú bendir til þess að stefnan sé ekki mótuð. Að sjálfsögðu hefur fólk, ráðherrar sem aðrir, mismunandi skoðanir. Skárra væri það nú. Það er hins vegar hlutverk, og ábyrgð, ríkisstjórnarinnar að móta stefnuna. Stefna snýst einkum um tvennt, annars vegar að setja markmið og hins vegar að skilgreina leiðir að því markmiði. Þriðja mikilvæga skrefið er svo að setja af stað aðgerðir sem færir okkur í átt að markmiðinu.
Þegar stefnan liggur fyrir er eðlilegt að ætlast til þess að þeir sem að henni standa styðji við hana, óháð skoðunum sínum (hér má ekki rugla þessu saman við það að þingmenn eigi aðeins að vera bundnir af sannfæringu sinni). Þingmenn geta og eiga að hafa mismunandi skoðanir. Það á hins vegar að taka slaginn á meðan hann stendur yfir. Á endanum þarf að taka ákvörðun sem oftar en ekki felur það í sér að mótuð er stefna í tilteknu máli. Þá er mikilvægt að allir hlutaðeigandi vinni markvisst samkvæmt henni.

Hitt dæmið er sú skoðun Kristjáns að lykilatriðið í kynningarmálum íslendinga sé að ljúka ICESAVE málinu svo hægt sé að vinna markvisst að kynningu Íslands og byggja upp ímynd þess. Þetta er út af fyrir sig rétt en nær þó ekki lengra en það nær. Hér er horft framhjá því að kynningarmál, einkum almannatengsl, eiga að gegna lykilhlutverki við lausn deilunnar. Einnig er verið að blanda saman tveimur, ekki þó alveg óskyldum, atriðum. Annars vegar er um það að ræða að vinna markvisst og stefnumiðað að lausn tiltekins vandamáls og hins vegar er um það að ræða að kynna landið og byggja upp ímynd þess. Þessi viðfangsefni kalla á mjög ólíkar leiðir í kynningarmálum.

En talandi um ímynd. Hver ætli ímynd Íslands sé á alþjóðavettvangi? Og ætli þessi alþjóðavettvangur sé bara einn vettvangur? Ætli þeir sem tala hvað mest um ímynd Íslands hafi mælt hana? Ef það hefur verið gert, hvernig og á meðal hverra? Því miður held ég að þetta sé allt saman í skötulíki. Meira um þetta síðar.

 


Ríðum sem fjandinn!

Ég var að hlusta á Bylgjuna í morgun sem er svo sem ekki frásögufærandi. Einn hlustandi bað um óskalag, Ríðum sem fjandinn með Helga Björns. Þetta er góð útgáfa af laginu og má hlusta á brot úr því hér.

Þeir sem hafa komið inn á síðuna mína hafa væntanlega áttað sig á því að ég er í karlakór, nánar tiltekið Karlakór Kjalnesinga. Á vordögum gáfum við út disk (sjá sýnishorn á tónlistarspilara) sem m.a. inniheldur þetta lag. Einnig má sjá myndband með umræddu lagi hér.

Það sem rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á þetta í morgun voru viðbrögð RÚV manna þegar við sendum þeim diskinn í þeirri von að hann yrði spilaður. Skilaboðin frá Rás 2 voru mjög skýr, við spilum ekki svona tónlist! Þetta kom okkur dálítið á óvart sérstaklega þar sem við áttuðum okkur ekki á því við hvað er átt þegar talað er um "svona tónlist". Áhugasamir geta nú borið saman útgáfurnar af laginu Ríðum sem fjandinn. Ég viðurkenni að ég er ekki hlutlaus en ef eitthvað er þá finnst mér útgáfa kórsins heldur frísklegri en hjá Helga. Sérstaklega í lokin en þá er eins og Helgi sé að lognast út af en það á aldeilis ekki við um kórútgáfuna. Í kórnum eru enda margir hestamenn og þeir vita að maður ríður alltaf frísklega í hlað!

Eftir þetta hef ég dálítið velt fyrir mér lagavali á Rás 2. Hvað ræður því hvaða lög eru spiluð og hver ekki og hvernig fer þetta val fram. Ég hef sérstakan áhuga á að vita hvernig plata vikunnar verður plata vikunnar. 

Sjálfsagt er þetta bara kalt mat á því hvað sé góð tónlist og hvað ekki. Ég hef þó áhuga á að skilja þetta betur og ætla því að kynna mér þetta.

 

 


Almannatengsl á erfiðleikatímum

 Þann 10. október 2008 skrifaði ég pistil um almannatengsl á erfiðleikatímum. Ástæðan var sú að mér ofbauð hvernig stjórnvöldu stóðu að þeim málum í kjölfar efnahagshrunsins. 

Því miður virðist mér lítið vera að gerast í þessum málum. Vissulega hafa stjórnvöld haldið stöku blaðamannafund og ráðið sér talsmenn með munninn fyrir neðan nefið. Mitt mat er að fátt er að gerast sem flokka má sem fagleg almannatengsl. Ástæðan virðist vera sú að stjórnvöld stórlega vanmeta þennan þátt. Það verður svo til þess að ekki er rétt að málum staðið. 

Eitt af því sem má ekki gleyma er að almannatengsl er eitthvað sem maður byggir upp. Eins og orðið bendir til þá er um að ræða tengsl við almenning. Það er of seint að ætla að fara að stunda almannatengsl þegar erfiðleikar steðja að. Það er þá sem maður notar inneignina sem byggð hefur verið upp. Vandi stjórnmálamanna er að fólk almennt, þ.e. almenningur, ber lítið traust til þeirra. Það er því mjög auðvelt fyrir þá sem vilja að sá fræum ótta og efa. 

Þeir sem hafa áhuga á þessum pistli mínum geta séð hann hér

 

 

 

 


Á eftir vetri...

...kemur vor!

Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Þó svo að veturinn sem framundan er kunni að verða harður og erfiður þá má ekki gleyma því að á eftir vetri kemur vor. Það er því alls ekki rétt að haga öllum aðgerðum eins og að um sífrera sé að ræða. Það mun birta til. Það þarf bara að þrauka og vinna sig í gegnum erfiðleikana með markvissum aðgerðum og umfram allt samstöðu þeirra sem að koma. Vonandi bera hlutaðeigandi gæfu til þess.

Því má ekki gera neitt sem skaðar innra skipulag samfélagsins varanlega. Við gætum þurft að herða sultarólarnar og neita okkur um ýmsan þann munað sem við höfum getað veitt okkur sl. ár. Sumir reyndar meir ein aðrir en látum það liggja á milli hluta í augnablikinu. Það má því ekki fara á taugum eins og kallað er. Það þarf að skilgreina raunveruleg verðmæti í samfélaginu og vernda þau. Annað kann því miður að þurfa að víkja. Á endanum mun birta á ný.

Eftir sem áður er barnalegt að láta sem ekki sé vetur framundan. Það er einnig ábyrgðarlaust að búa sig ekki undir hann. Þeir sem fara léttklæddir inn í veturinn munu skaðast. Því miður sýnist mér einhverjir ætla að gera það. Aðrir hafa lítil tækifæri til að undirbúa sig. Samfélagið þarf að taka utan um þá. 

Hver og einn þarf því að sýna tiltekna ábyrgð. Bæði þarf fólk að taka ábyrgð á sjálfum sér og sinni hegðun en einnig að sýna tiltekna samfélagslega ábyrgð. Því miður sýnist mér sumir alls ekkert skilja hvað það er. Mér eru minnisstæð orð Sigurbjörns biskups þegar hann talaði um að vandi okkar kynni að liggja í því að of margir eru miklu meðvitaðir um rétt sinn en skyldur. 

Mér finnst nokkuð mikið til í því.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband