Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
Fordekruð meðalmennska!
24.8.2009 | 09:50
Ég er mikill áhugamaður um íþróttir og hef mikla ánægju af því að sjá frábært íþróttafólk keppa sín á milli. Er nánast alæta og hef sérstaklega gaman af að horfa á íþróttir sem eru ekki mikið stundaðar hér á landi.
Eina sem mér leiðist er að horfa á frekar slaka íþróttamenn keppa sín á milli. Stundum finnst mér íslenskur karlafótbolti vera í þessum flokki. Skil satt best að segja ekki það rými sem fótbolti fær í fjölmiðlum. Í dæmigerðum fréttatíma fær maður 3-4, oft alveg ótrúlega ómerkilegar, fótboltafréttir áður en fjallað er um aðrar greinar. Ef það er þá gert. Er t.d. fréttnæmt að Eiður Smári hafi setið á bekknum? Væri það ekki frétt ef hann fengi að spila? Því þarf maður svona nákvæmar upplýsingar um afdrif íslenskra leikmanna í Norsku deildinni? Er það merkilegt?
Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum er umfjöllun MBL 22. ágúst sl. um eldgömul Íslandsmet í frjálsum íþróttum. Hvernig stendur á því að metið í 100 m hlaupi er síðan 1957, í þrístökki frá 1960 og að Clausen bræður séu í 4. sæti í 200 m hlaupi og tugþraut á afrekaskrá FRÍ? Er ekki til umhugsunar að Jón Arnar Magnússon, sem var tugþrautarmaður, skuli eigi einn besta árangur í mörgum greinum þrautarinnar? Svipaða sögu má segja frá öðrum greinum. Þannig er metið í 1500 m hlaupi frá 1982, í maraþoni frá 1985 og í stangarstökki karla frá 1984.
Vissulega voru þetta allt frábærir íþróttamenn en miðað við eðlilega þróun þá ætti að vera búið að slá eitthvað af þessum metum. Vissulega eru ljós í myrkrinu, þá sérstaklega hjá konunum en samt sem áður eru mörg met í kvennaflokki komin við aldur.
En ætli ástæðan fyrir þessu sé sú að á Íslandi séu ekki góð efni í frálsíþróttamenn? Ég tel svo ekki vera. Tel að mistökin sem gerð eru hvað karla varðar séu þau að flestum drengjum er beint í fótbolta á sínum yngri árum. Mjög margir þrífast þar illa og ná litlum árangri. Þegar þeir átta sig á því er það gjarnan of seint til að fara að stunda aðra íþrótt.
Með þessu er oft miklum hæfileikum sóað. Hvaða vit er t.d. í því að 17 ára karlmaður sem er 178 cm á hæð, 85 kg og með 12% fitu sé í fótbolta? Þetta er raunverulegt dæmi. Viðkomandi fann sig ekki og komst ekki í lið enda flestir frábærir fótboltamenn annaðhvort mun minni og léttari eða stærri. Sem betur fer áttaði þessi einstaklingur sig á stöðunni, snéri sér að annarri íþrótt og varð íslandsmeistari í henni í nokkur ár.
Því miður held ég að þessi saga sé nokkuð algeng. Ungmenni er gjarnan send í fótbolta m.a. vegna þess að það er þægilegt og svo virðast allir í hverfinu stunda hann. Ekkert er gert í því að greina hvar hæfileikar einstaklingsins liggja og beina viðkomandi í þá átt. Niðurstaðan er sú að íslenskur karlafótbolti er frekar slakur. Liðin eru allt of mörg miðað við íbúafjölda og greinilega margir að stunda fótbolta sem ættu líklega betur heima í annari íþrótt, s.s. eins og frjálsum. Við erum t.d miklu betri í handbolta en fótbolta en samt er eins og hann sé í öðru sæti á eftir hondum. Það þykir mér hálf fáránlegt.
En hver er þá lærdómurinn af þessu rausi? Jú hann er sá að það er mikilvægt fyrir okkur á Íslandi að átta okkur á því í hverju við erum góð og einbeita okkur að því. Þess vegna er samstarf við aðrar þjóðir mikilvægt. Þær geta þá sinnt því sem við erum síðri í.
Að lokum þetta. Það virðist raunhæfur möguleiki á því að kvennalandsliðið í fótbolta geti unnið til verðlauna á stórmóti á næstu 5-7 árum (tel ofurbjartsýni á að það gerist nú, en áfram Ísland!). Það eru hverfandi líkur fyrir því að karlalandsliðið komist á stórmót. Liggur ekki í augum upp hvað KSÍ á að gera?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Orsök eða afleiðing?
23.8.2009 | 11:32
Ég hef sjaldan fengið eins mikil viðbrögð og við síðasta pistli mínum sem fjallaði um skuldaniðurfellingu.
Sumir virðast álíta að ég sé ekki mannvinur og vilji ekki að fólki sé komið til aðstoðar! Þetta er auðvitaða alrangt. Ég tel mikilvægt að leitað sé leiða til að leiðrétta þau undarlegheit sem átt hafa sér stað í efnahagslífinu.
Ástæðan fyrir því að ég tala gegn almennri niðurfellingu skulda er sú að þá væri verið að rugla saman orsök og afleiðingu. Það eru mjög algeng mistök. Afleiðingar eru eins og sjúkdómseinkenni. Það að ná tökum á sjúkdómseinkennum táknar ekki að maður hafi náð tökum á sjúkdómnum. Verði ekkert meira að gert mun sjúkdómurinn taka sig upp á ný með nýjum eða sömu sjúkdómseinkennum.
Skuldaaukning heimilana er því sjúkdómseinkenni af einhverju öðru. Það að fella niður skuldir og álíta út frá því að búið sé að leysa eitthvert vandamál er misskilningur. Það er mjög mikilvægt að greina orsökina og vinna gegn henni. Að sjálfsögðu á ekki að láta sjúkdómseinkennin afskiptalaus. Tel reyndar að það sé verið að gera eitthvað í þeim. Menn geta svo deilt um það hvort meðferðin sé nægilega góð eða rétt.
En hver er þá orsökin? Líklega ekki einhver ein heldur sambland margra þátta. Eitt af því sem ég hef verið að skoða undanfarin ár er hugtakið KAUPVILJI í eftirspurnarfræðum. Ég tel einfaldlega að ein af orsökum fjárhagsvanda sumra sé of ríkur kaupvilji!
Meira um það síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Niðurfelling skulda!
19.8.2009 | 09:37
Það að stjórnmálamenn skuli aftur vera farnir að tala um það í alvöru að fella niður skuldir heimila er verulega til umhugsunar. Dreg satt best að segja í efa að menn séu að tala í alvöru enda er almenn niðurfelling skulda afar slæm hugmynd að mínu viti.
Það er að sjálfsögðu satt og rétt að sumir eru fórnarlömb efnahagshrunsins og sitja saklausir uppi með skuldir sem þeir töldu sig ekki hafa stofnað til. Þetta er fólk sem tók gengistryggt lán til íbúðarkaupa í góðri trú, og samkvæmt ráðgjöf, um að þetta væri ábyrgur gjörningur.
Það er hins vegar einnig satt og rétt að margt fólk hefur, er og verður afar óábyrgt í fjármálum. Þetta eru einstaklingar sem keyptu sér miklu dýrari eign en þeir höfðu í raun efni á, "hentu" öllu út og endurinnréttuðu samkvæmt nýjustu tísku og straumum og tóku erlent lán fyrir öllu saman.
Það er beinlínis móðgun við sæmilega ábyrgt fólk sem reynir að standa sig að bjóða því upp á þessa hugmynd. Það er einnig undarlegt, ef satt reynist, að fyrirtækjum og fjárfestum bjóðist einhver önnur kjör en skuldugum heimilum.
En hvað er þá til ráða? Ekki er hægt að láta fyrirtækjum og heimilum blæða út hægt og rólega. Hafi menn misst trú á markaðsöflunum, og vilji handstýra efnahagsmálum enn frekar, væri miklu nær að leiðrétta skuldastöðu heimilana með því að fastsetja gengið í einhverri þeirri vísitölu sem menn gerðu ráð fyrir, fyrir u.þ.b. 18 mánuðum síðan. Þá gáfu sumar greiningardeildir bankanna út að gengisvísitalan ætti að vera 150-160 stig. Hún er núna 237 stig! Þetta væri ekki gallalaus aðgerð en ástandið nú er alls ekki gallalaust og hve lengi vont getur versnað áður en það batnar veit ég ekki.
Það er einnig til umhugsunar að nota aðgerðir stjórnvalda gagnvart peningamarkaðssjóðum sem rök fyrir skuldaniðurfellingu. Hvort sem það var góð, slæm, réttlát eða óréttlát aðgerð þá væri þetta eins og að handa góðum peningum á eftir slæmum. Það eru því miður algeng mistök stjórnenda og stjórnvalda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Getur gengið gengið?
17.8.2009 | 09:43
Þrátt fyrir alla mína trú á markaðnum og frelsi í viðskiptum tel ég tímabært að viðurkenna að markaðsöflin ráða mjög illa við gengi íslensku krónunnar. Tel því koma til álita að aftengja hana markaðnum og nota handaflið á ný!
Þetta myndi að sjálfsögðu hafa margvíslega hagræn áhrif í för með sér og sjálfsagt munu einhverjir hagfræðingar súpa kveljur yfir þessari afturhaldssemi. Á móti kemur að öll sú hagfræðiviska sem við höfum notið undanfarin ár gat ekki komið í veg fyrir það ástand sem nú er hér.
Hér áður var gengið fellt reglulega til að koma útflutningsgreinunum til hjálpar. Það var auðvitað gert á kostnað almennings og lífskjara í landinu. Mjög mikið af þeim vandamálum sem steðja að heimilum og atvinnurekstri tengist því að gengisvísitalan er of há. Flestir virðast sammála um það. Nú ættu stjórnvöld að taka sig til og hækka gengi krónunnar og koma gengisvísitölunni í amk. 170 stig. Síðan þarf að vinna markvisst að því að taka upp erlendan gjaldmiðið á einhverju sanngjörnu og eðlilegu skiptigengi og þá þarf að horfa til lífvænleika efnahagslífsins til lengri tíma. Ég tel að eitt af samningsmarkmiðum aðildarviðræðna við ESB eigi að vera að fá að tengja íslensku krónuna við Evru nú þegar.
Hér þarf þó að hafa í huga að veik króna þjónar hagsmunum tiltekinna afla, s.s. útflutningsgreinum og að einhverju leyti fjármálageiranum. Það kann því að vera að það sé engin sérstakur áhugi á að styrkja krónuna næstu mánuði. Það gangi bara ekki að segja það opinberlega.
Spurningin er bara sú hversu lengi á að bjóða almenningu upp á slíkt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ákvarðanafælni!
16.8.2009 | 18:00
Ég hef stundum sagt að hlutverk stjórnenda snúist að miklu leyti um eitt viðfangsefni en það er að taka ákvarðanir. Sumun finnst þetta fullmikil einföldun en ég hef ákveðið að halda mig við þessa skoðun. Hvernig sem er þá er það hlutverk stjórnenda að taka ákvarðanir og að mínu viti er fátt verra í stjórnun en stjórnendur sem virðast ófærir með að taka ákvarðanir.
Vissulega getur verið vandasamt að taka góðar ákvarðanir og mjög mikilvægt er að ákvörðun fylgi framkvæmd. Fyrir margt löngu vann ég við að hjálpa fólki við að koma lagi á eigið líf. Þar var lögð áhersla á þriggja skrefa ferli, að hugsa, taka ákvörðun og framkvæma. Mikilvægt er að það sé jafnvægi á milli þessara þriggja skrefa og ekkert eitt skref er mikilvægara en annað. Ofuráhersla á eitt skref á kostnað hinna er ekki líklegt til árangurs.
Þannig er hægt að eyða mjög miklum tíma í að hugsa um að gera eitthvað. Velta hlutunum lengi fyrir sér en forðast það að taka ákvörðun. Láta hins vegar líta svo út sem verið sé að taka ákvörðun og gera heilmikið í málunum en vera í raun ekki að gera neitt. Þetta er stundum kallað Busy doing nothing! Einnig er hægt að taka vanhugsaðar ákvarðanir og verst af öllu er að framkvæma eitthvað sem er óhugsað, án markmiða og ekki hluti af einhverju heildstæðu plani.
Þetta þykir mér stundum einkenna ástandið nú!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hættulegir stjórnmálamenn?
13.8.2009 | 10:47
Eva Joly er merkileg manneskja. Ég les og hlusta með athygli á það sem frá henni kemur en er ekki endilega sammála öllu. Eva virðist þó hafa munninn fyrir neðan nefið og vera ágætlega tengd sem er eftirsóknarvert í þeirri stöðu sem við erum í nú. Í Fréttablaðinu í dag, bls. 10-11, er fréttaviðtal við Evu. Þar setur hún fram athyglisverða skoðun en í lok greinarinnar er eftirfarandi haft eftir henni:
"Það versta í heiminum eru atvinnustjórnmálamenn, til dæmis fólk sem hefur bara sinnt stjórnmálum í þrjá eða fjóra áratugi. Slíkt fólk er hættulegt".
Svo mörg voru þau orð.
Hér er eitt og annað óljóst hjá Evu (eða blaðamanni). Hvenær verða stjórnmálamenn hættulegir? Er það þegar þeir eru búnir að vera mjög LENGI, eða er það þegar þeir gera EKKERT ANNAÐ en að vera stjórnmálamenn? Eða er það þegar þetta tvennt fer saman? Og hvað þýðir það nákvæmlega þegar stjórnmálamenn eru hættulegir?
Sem betur fer virðist þetta vandamál ekki eiga við hér á landi! Stór hluti þingmanna er á fyrsta eða öðru kjörtímabili sínu. Einhverjir myndu kalla það óheppilegt reynsluleysi.
Ætli það geti verið hættulegt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Villan við viðskiptafræði!
12.8.2009 | 21:30
Í kjölfar efnahagshrunsins hafa komi fram ótrúlegar ranghugmyndir um eðli og viðfangsefni viðskiptafræðinnar. Hefur þetta gengið svo langt að einn og einn hefur látið sér detta í hug að efnahagshrunið hafi verið viðskiptafræðinni og/eða viðskiptafræðingum að kenna! Þetta er alrangt og bera sjónarmið sem þessi vott um alvarlegan þekkingaskort á viðfangsefnum viðskiptafræðinnar.
Vðskiptafræðin er ekki ein grein heldur nokkrar fræðigreinar. Þar undir eru greinar eins og stjórnun, fjármálafræði, reikningshald og endurskoðun, markaðsfræði, rekstrarstjórnun og mannauðsstjórnun. Þetta hefur það í för með sér að viðskiptafræðin er fjölmenn grein og vinsæl og verður það eflaust áfram.
Viðskiptafræðingar fást við rekstur. Sumir í einkageiranum aðrir hjá hinu opinbera. Á meðan við stundum e.k. rekstur verður alltaf þörf fyrir fólk með góða viðskiptafræðimenntun. Viðfangsefnin er ólík og fjölbreytt. Sumir eru framkvæmdastjórar, sumir fjármálastjórar, sumir endurskoðendur og enn aðrir eru markaðsstjórar. Viðfangsefnin krefjast þess að viðkomandi hafi góðan grunn í almennri viðskiptafræði og hafi sérhæft sig í einhverri af hinum fjöldamörgu undirgreinum hennar.
Ég vil því halda því fram að það hefi verið VEGNA viðskiptafræðinnar sem efnahagskerfið hér hrundi heldur miklu heldur vegna SKORTS á góðri viðskiptafræði. Alltof margir hafa verið að vasast í viðskiptum án þess að hafa grundvallarskilning á eðli þeirra. Því sé aldrei eins mikilvægt og nú að kenna fólki góða viðskiptafræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Opinber starfsemi
12.8.2009 | 10:06
Opinber starfsemi hefur lengi verið mér hugleikin. Bæði hafa rannsóknir mína snúist um hið opinbera en einnig hef ég áralanga reynslu sem starfsmaður hjá opinberu fyrirtæki eða stofnun.
Nokkrar vangaveltur eru um hvaða starfsemi eigi að vera í höndum hins opinbera og hvaða starfsemi í höndum einkageirans. Eru þeir þá gjarnan kenndir við vinstrimennsku sem vilja veg hins opinbera sem mestan á meðan hægrimenn vilja frekar sjá starfsemina í höndum einkageirans.
Það er erfitt að segja til um hvað eigi að vera í höndum hins opinbera og hvað ekki enda eru gjarnan um pólitíska ákvörðun að ræða. Pólitíkin tekur hins vegar ekki alltaf skynsamlegar ákvarðanir þó svo að vissulega komi það fyrir. Mikilvægt er að leyfa rekstrarlegum sjónarmiðum einnig að koma að þeirri ákvörðun. Slæmt er að einkavæða eitthvað bara af þeirri ástæðu að maður hefur þá pólitísku trú að starfsemi sé betur komin í höndum einkaaðila en hjá hinu opinbera. Í raun er fátt sem bendir til þess. Jafnslæmt er að ætla hinu opinbera óeðlilega hátt hlutfall í starfsemi bara af því að maður treystir ekki einkaaðilum fyrir henni.
Mér finnst mikilvægt að hafa í huga að það er ekki lögmál að einkaaðili geri hlutina betur en opinber aðili. Opinber starfsemi þarf vissulega að temja sér nútímalega starfshætti en á ekki að vera að vasast í samkeppnisrekstri. Samkeppnishugtakið er hins vegar ekki alltaf augljóst og hvað sem menn kunna að segja þá er það mín skoðun að samkeppni er ekki alltaf af hinu góða. Það á sérstaklega við þegar menn missa sjónar af því megin viðfangsefni að skapa viðskiptavinum sínum sem mestan ábata en láta þess í stað eigin ávinning ganga framar öllu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þensluhagfræði!
10.8.2009 | 15:26
Í Fréttablaðinu laugardaginn 8. ágúst var forsíðufrétt sem bar yfirskriftina "Sparifé í bönkum ber neikvæða vexti". Blaðamaður virðist hafa rætt við tvo þingmenn um málið, annars vegar Pétur Blöndal þingmann sjálfstæðismanna og hins vegar Lilju Mósesdóttir þingmann Vinstri Grænna. Það sem haft er eftir Lilju vaktir athygli mína en í greininni segir:
"Þetta er í sjálfu sér jákvætt á eins miklum samdráttartímum og við erum að ganga í gegnum núna," segir Lilja. "Það er mjög jákvætt að það séu nærri því neikvæðir raunvextir á sparifé vegna þess að það sem samfélagið og efnahagslífið þarf er að fólk eyði peningum ef það á peninga. Og það er fullt af fólki sem á peninga vegna þess að ríkið tryggði innstæður að fullu." Það sé því í sjálfu sér ekki neikvætt fyrir samfélagið þó það sé neikvætt fyrir einstaklinga að peningar séu að brenna upp.
Svo mörg voru þau orð. Nú eiga sem sagt allir sem eiga peninga að fara af stað og eyða þeim. Það sé best fyrir samfélagið!
Þessu get ég bara ekki verið meira ósammála. Í fyrst lagi tel ég ekki rétt að tala um að fólki eyði peningum. Réttara væri að tala um að fólk ráðstafi þeim á skynsamlegan hátt. Það að hlaupa til nú og kaupa bara eitthvað af því að maður á pening og af því að vextir eru lágir getur ekki talist skynsamlegt.
Lítill sparnaður hefur alltaf verið vandamál hér á landi. Það er mjög mikilvægt að stuðla að því að fólk spari frekar en eyði! Íslendingar þurfa enga sérstaka hvatningu eða kennslu í eyðslusemi. Það sjá allir sem vilja. Það væri miklu nær að taka upp skyldusparnaðinn aftur og hvetja ungt fólk til ráðdeildar og hófsemi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
ESB eða ekki ESB
7.8.2009 | 12:41
Allt stefnir í að almenningur þurfi að taka afstöðu til inngöngu í ESB. Til að það sé hægt þarf fólk að hafa góðar upplýsingar um hvað ESB er og hvaða almennu áhrif innganga í ESB hefði á Ísland og íslenskt samfélag. Að vísu á eftir að vinna í samningnum en það breytir því ekki að margt er almennt og margt er væntanlega nú þegar í gildi.
Á vefsvæðinu island.is er að finna upplýsingaveitu stjórnvalda. Þar er að finna margvíslegar upplýsingar um hitt og þetta er tengjast aðgerður stjórnvalda í kjölfar efnahagshrunsins. Þar er hins vegar ekki að finna greinargóðar upplýsingar um ESB. Úr því þyrfti að bæta hið fyrsta.
Á opna alfræðivefnum Wikipedia má finna upplýsingar um ESB. Sú grein er merkt sem gæðagrein og virðast upplýsingarnar almennar og hlutlausar. Lesendur hvattir til að kynna sér þær. Sambærilegar upplýsingar er að finna á vef Samtaka iðnaðarins en þar þarf að hafa í huga að samtökin hafa þá yfirlýstu stefnu að hagsmunum iðnaðarins sé betur borgið innan ESB en utan. Ennfremur hefur Eiríkur Bergmann stjórmálafræðingur verið að skrifa greinar í Fréttablaðið varðandi kosti og galla inngöngu í ESB en eftir því sem ég best veit þá hallast Eiríkur frekar að ESB en frá því. Framtak hans er þó til fyrirmyndar en má ekki verða upphafið að deildum þeirra er hallast að eða frá ESB.
Ýmsir ESB-sinnar sem og anti-ESB-sinnar halda úti vefsvæðum þar sem málstaðnum er haldið á lofti. Gallinn við þær upplýsingar er að þær er fremur einsleitar í þá átt sem hentar málstaðnum og því ekki gagnlegar fyrir almenning sem vill kynna sér málið með hlutlausum hætti. Flestir átta sig á því að það getur varla verið um það að ræða að það séu bara kostir eða bara gallar við það að ganga í ESB.
Ég tel mikilvægt að til verði e.k. hlutlaus upplýsingaveita sem dregur fram staðreyndir um ESB og leiðir saman ólík sjónarmið varðandi kosti og galla inngöngu Íslands í sambandið. Kannski ætti Háskóli Íslands að taka það að sér enda nýtur skólinn almenns trausts meðal almennings.
Bloggar | Breytt 8.8.2009 kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)