Kreppan og Evran!

Haustið 2008 gaf ég það út að hvað efnahagshrunið varðaði þá yrði það versta afstaðið eftir tvö ár, þ.e. haustið 2010. Reyndar fylgdi þessari yfirlýsingu að forsenda þess að svo yrði væri sú að teknar yrðu margar réttar ákvarðanir.

Því miður bendir margt til þess að ég hafi rangt fyrir mér. Helsta ástæðan er sú að allt of langan tima hefur tekið að leysa mikilvæg mál. Sumt af því er skiljanlegt en annað verður að skrifa á stjórnmálamenn. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða meirihluta eða minnihluta. Allt of mikil orka fer í innbyrðis átök innan Alþingis sem virðist hafa lítið með hið raunverulega líf fólks að gera. 

Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda að mínu viti er að leiðrétta gengi krónunnar. Hvert gengið eigi að vera er erfitt um að segja en flestir virðast sammála um að það sé of hátt. Athyglisverð umræða um þessi mál var í Kastljósinu fimmtudaginn 11. mars en þar kom m.a. fram að gengi Evru ætti að vera 117 í stað 179 ef bankarnir hefðu ekki tekið stöðu gegn krónunni. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig skýrsluhöfundur, Bjarni Kristjánsson, kemst að þessari niðurstöðu og sjálfsagt eru um þetta skiptar skoðanir.

Í síðustu viku var ég staddur í Evru landi, nánar tiltekið Hollandi, og vakti það furðu mína að þrátt fyrir óhagstætt gengi, var þá um 175 kr., hve margar vörur voru ódýrari þar en á Íslandi. Hins vegar voru nokkrar vörur dýrari sem hafa í gegnum tíðina verið á svipuðu verði og hér. Þetta er að sjálfsögðu fullkomlega óvísindaleg niðurstaða en skemmtilegt dundur engu að síður.

Þær vörur sem um ræðir eru gjald í almenningssamgöngur, kaffi latte og 1/2 líter af gosi. Í Hollandi kostar 2,6 Evrur að fara með sporvagni. Hér kostar það 280 kr. Ef verðið væri svipað þá ætti Evran að vera á 107 kr. Latte kostaði um 3,5 Evrur, hér 420 kr. Ef verðið væri svipað þá ætti Evran að vera á 120 kr. 1/2 líter gos kostaði um 1,9 Evru, hér um 210 kr. Ef verðir væri svipað þá ætti Evran að vera á 110 kr.

Mín óvísindalega niðurstaða er því sú að gengi Evru ætti að vera 110-120 kr. sem er skemmtilega nálægt niðurstöðu Bjarna. Hans niðurstaða er eflaust byggð á faglegri vinnubrögðum og því sætti ég mig ágætleg við 117 kr.  

Þó svo að hátt gengi komi útflutningsgreinum vel þá eru miklu fleiri sem skaðast við það. Það er því forgangsverkefni stjórnvalda að stuðla að því að leiðrétta gengið. Ef hægt var að taka stöðu gegn krónunni þá hlýtur að vera hægt að taka stöðu með henni. Spurningin er bara hver og hvernig.

...eða hvað?   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband