Hvað er að frétta?

Stundum þykir mér fjölmiðlar afar takmarkaðir. Það er eins og að það ágæta fólk sem þar starfar ráði aðeins við umfjöllun um eitt mál í einu. Skiptir þá engu hver miðillinn er, þeir virðast allir hafa sama "fréttanefið" og láta alla fréttatíma sem og fréttatengda þætti fjalla um þetta sama mál.

Þetta hefur orðið til þess að ég er oftar og oftar farinn að stilla á Rás 1. Þar láta menn dægurþras ekki mikið trufla sig og halda sínu (dagskrár) striki sama hvað á dynur. Verð þó að viðurkenna að það er dálítið sérstakt að hlusta á 30-40 mín. þátt um mjög afmarkað efni. Stundum svo afmarkað og sérstætt að mér er til efs að margir tugir hlustenda hafi þekkingu, vit eða ánægju af því. Það er hins vegar ánægjulegt að vita til þess að enn skuli vera til fólk sem hafi nennu til að setja sig vel inn í afmörkuð mál og fjalla um þau af viti (þekki þó sjaldnast efnið nægilega vel sjálfur til að geta dæmt um það en umræðan er trúverðug).

En hvað er að frétta? Hvað er með þau mál sem tröllriðu öllum fjölmiðlum fyrir ekki löngu síðan? Hvað með t.d. IceSave? Er það mál bara leyst? Eða er það jafn óleyst og þegar umræðan um það mál var sem mest? Tek þó fram að ég er ekki að kalla eftir frekari umfjöllun um það mál. Ég eins og margir var alveg búinn að fá mig fullsaddan af þeirri umræðu.

Velti fyrir mér hvort Magma málið sé af svipuðum toga. Um annað er varla rætt þessa dagana. En er þetta mál sem verðskuldar svona mikla athygli? Kannski, kannski ekki. 

Mér heyrist þó margir rugla saman mörgum málum í tengslum við þessa umræðu. Stundum er verið að tala um viðskiptasamning milli tveggja lögaðila, stundum um það hvort orkuauðlindir eigi að vera í eigu þjóðarinnar, stundum um stefnu Vinstri Grænna, stundum um yfirgang Samfylkingarinnar og stundum um það hvort þetta mál sé ekki einmitt dæmi um það að það eigi að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.

Þessu er svo gjarnan öllu blandað saman í einum og sama þættinum. Mjög upplýsandi eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband