Viðskiptavilla!
20.11.2009 | 21:32
Ég hef alltaf öðru hvoru látið mér detta í hug ný orða eða orðasambönd til að ná utanum þær hugmyndir sem ég er með í kollinum. Eitt af þeim orðum var "viðskiptasóðaskapur" sem fór frekar fyrir brjóstið á sumum!
Nú skal kynnt til sögunnar nýtt hugtak, "viðskiptavilla". Það er þegar þeir sem koma að rekstri hafa lítinn sem engan skilning á þeim rekstri né heldur því umhverfi sem hann er í.
Á undanförnum vikum hef ég frétt af nokkrum málum þar sem ráðgjafi frá viðskiptabanka fyrirtækis kemur að rekstrinum í þeim tilgangi að leita hagræðingar.
Hagræðingartillögurnar eru í flestum tilvikum frekar fátæklegar. Nær undantekningarlaust ganga þær út á að hækka verð. Það er lítil hagræðing í því. Hér er miklu heldur verið að koma kostnaði yfir á aðra, þ.e. neytendur. Reksturinn er eftir sem áður jafn óhagkvæmur eða hagkvæmur eftir atvikum.
Áhrif þessarar stefnu bankanna, en þeir eru enn flestir í forsjá ríkisins, geta verið mjög slæmar. Þessi skammtíma ásókn í greiðsluflæði fer beina leið út í verðlagið með tilheyrandi orsökum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þjóðfundur 2009
14.11.2009 | 22:49
Þjóðfundurinn var haldinn í dag og var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að sitja hann. Að mínu viti var þetta það jákvæðasta sem gerst hefur hér á landi í margar, margar vikur.
Á fundinum hafði ég það hlutverk leiða umræður á borði þar sem 7 þátttakendur voru saman komnir. Það sem kom skemmtilega á óvart var hvað fólkið var jákvætt og áhugasamt og í raun sammála um mörg grundvallaratriði. Það átti t.d. við um gildin sem var fyrsta verkefni hópanna. Í raun voru allir hóparnir sammála og þau gildi sem birt voru þess eðlis að flestir geta tekið undir þau. Líklega gæti öll þjóðin tekið undir þau.
Þetta voru gildi eins og heiðarleiki, réttlæti, virðing, jafnrétti, kærleikur, ábyrgð og frelsi. Hver er svo sem ekki sammála þessu? Sjá nánar á Þjóðfundur 2009
Tilraunin var áhugaverð. Sannfærði mig um að almenningur er fullfær um að móta stefnu í mikilvægum málum fyrir þjóðina. Líklega betur til þess fallinn en þeir sem nú eiga að sinna því!
Kannski ætti að breyta kosningakerfinu? Hætta einfaldlega að kjósa en velja þess í stað 25% þingmanna af handahófi á tveggja ára fresti. Þeir mættu svo líklega vera færri en nú. Með þessu móti yrði enginn of stutt né of lengi. Viss um að árangurinn yrði ekki síðri en nú.
Hagsmunaaðilar eru eflaust ósammála mér.
Bloggar | Breytt 15.11.2009 kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Barnalán!
3.11.2009 | 09:16
Kreppan hefur á sér marga skrýtna fleti. Margt sem þarf að endurskoða og endurhugsa. Eitt af því er endurskilgreining orða og hugtaka, s.s. eins og á orðinu barnalán. Í orðabóka má finna þessa skilgreiningu á því orði:
.. eiga <velgengni, barnaláni> að fagna eiga því láni að fagna að <búa við góða heilsu> ég átti ...
Margt sem bendir til þess að í næstu útgáfu þurfi að bæta við skilgreiningu, s.s. eins og:
...ná sér í <velgengni, barnalán> að komast yfir mikið fyrir lítið að <búa við gott barnalán> ég átti gott...
Þetta mál er líklega einhver almesta hryggðarmynd efnahagshrunsins. Látum vera að fullorðið fólk sé að púkast hvert í öðru í nafni velgengninnar. Einhversstaðar hljótum við að vilja draga e.k. siðferðismörk.
...eða hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fúsk og fum!
31.10.2009 | 11:18
Ég hef stundum látið ófagleg vinnubrögð í stjórnun markaðsmála fara í taugarnar á mér. Félagi minn úr háskólaumhverfinu benti mér reyndar á að ef mér þætti fúsk áberandi þá gæti ég líklega sjálfum mér um kennt þar sem mjög líklegt væri að ég hefði kennt þessu fólki. Það kann að vera eitthvað til í þessu enda reynir maður að vera á tánum hvað þessa þekkingaryfirfærslu varðar.
Ég sá hins vegar nýlega starfsauglýsingum sem minnti mig á hvar vandinn liggur að mínu mati. Vandamálið liggur ekki endilega í þekkingarskorti þeirra sem vinna, eða geta unnið, þessi störf heldur miklu heldur hjá þeim sem ráða í þessi störf og jafnvel hjá þeim ráðgjöfum sem koma að ráðningunni.
Í umræddri auglýsingu kemur fram um menntunar- og hæfniskörfur:
- Sveinn eða meistari í <faginu>
- Reynsla af stjórnun
- Frumkvæði og hæfni til að vinna sjálfstætt
- Skipulögð vinnubrögð
- Rík þjónustulund og samskiptahæfni
- Góð almenn tölvukunnátta
Það er alltaf fróðlegt að skoða svona lista. Það má ganga úr skugga um hvort umsækjandi hafi sveins eða meistarapróf faginu og hafi góða almenna tölvukunnáttu. Hin atriðin eru miklu erfiðari við að eiga. Hvað er t.d. átt við með reynslu af stjórnun. Á hún að vera löng eða stutt, góð eða slæm? Umsækjandi gæti átt langan stjórnunarferil en þegar betur er að gáð þá kemur í ljós að flestum þykir viðkomandi slæmur stjórnandi. Þetta má þó auðvitað kanna með nokkurri fyrirhöfn.
Hin atriðin eru öllu verri. Hvernig metur maður frumkvæði og hæfni til að vinna sjálfstætt? Og hvaða lund er þessi þjónustulund? Og hvað með samskiptahæfnina? Þetta eru augljósir kostir en erfitt að meta.
Látum vera hvers krafist er og skoðun nánar hvað viðkomandi á að gera. Í auglýsingunni kemur fram hvað ábyrgðarsvið og helsu verkefni varðar:
- Rekstur og starfsmannahald
- Afgreiðsla og þjónusta
- Vöruinnkaup og samskipti við birgja
- Sölu- og markaðsmál
Þetta er athyglisvert. Þegar maður ber saman listana þá er ekki augljóst að sjá að um sama starf er að ræða. Það kemur t.d. hvergi fram í menntunar- og hæfniskröfum að viðkomandi þurfi að hafa lágmarks rekstrarþekkingu. Viðkomandi þarf ekki heldur að kunna skil á grundvallaratriðum í mannauðsstjórnun né heldur í vörustjórnun.
Það ekki heldur talið nauðsynlegt að viðkomandi hafi þekkingu í stjórnun markaðsmála. Það virðist þó vera eitt af fjórum megin viðfangsefnum starfsmannsins. Niðurstaðan verður því óhjákvæmilega fúsk. Það hefur ekkert með góðan vilja eða viðhorf að gera. Stjórnun markaðsmála er viðfangsefni sem krefst tiltekinnar þekkingar.
Ég tek þessa auglýsingu aðeins sem dæmi um algengt fyrirkomulag. Vona að þeir sem þekkja til auglýsingarinnar fyrirgefi mér. Gagnrýni mín beinist ekki að viðkomandi starfsemi. Miklu heldur að því algenga viðhorfi stjórnenda og eigenda að stjórnun markaðsmála séu viðfangsefni sem allir og enginn geti unnið vel og ekki þurfi neina sérstaka þekkingu til þess. Dæmin sanna að stundum er útfærsla markaðsstarfs léleg, órökrétt og illa ígrunduð. Þegar betur er að gáð þá kemur í ljós að þeir sem hafa með þessi mál að gera hjá fyrirtæki eða stofnun, hafa ekki þá þekkingu sem nauðsynleg er.
Niðurstaðan verður því fúsk og fum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Smálán!
9.10.2009 | 19:20
Fyrirtækið Kredia ehf hefur tekið upp á því að bjóða fólki það sem fyrirtækið kýs að kalla smálán. Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram:
Kredia ehf. var stofnað til að auðvelda aðgang almennings að smálánum. Það er markmið Kredia að viðskiptavinir njóti ætíð skjótrar og góðrar þjónustu, einfaldlega og örugglega með nýtingu nútímatækni.
Kredia vill bjóða aðra möguleika í lánaviðskiptum. Þjónustan er áþekk lánaþjónustu bankanna eða kreditkortaþjónustu, en þó þarf ekki að stofna reikning eða greiða árgjöld eða önnur gjöld tengd viðskiptunum. Viðskiptavinir greiða eingöngu gjald fyrir hvert lán fyrir sig.
Þetta er út af fyrir sig áhugavert og gott svo langt sem það nær. Mér er þó til efs að það sem er mikilvægt einmitt núna sé að auðvelda almenningi aðgengi að smálánum en hver og einn verður að sjálfsögðu að gera það upp við sig.
Áður en slíkt lán er tekið ættu menn þó að skoða kjörin vel. Fyrir 10.000 kr. í 15 daga greiða lántakendur kr. 2.500. Ef sama lán er tekið í aðra 15 daga, þ.e. einn mánuð, greiðir lántakandinn kr. 5.000. Sé lánið tekið í eitt ár er kostnaðurinn (vextirnir) kr. 60.000.
Þetta þætti einhversstaðar nokkuð háir vextir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fellur stjórnin?
30.9.2009 | 14:33
Nú vaxa líkurnar heldur fyrir því að ríkisstjórn Íslands falli. Ögmundur, sem þó segist enn styðja ríkisstjórnina, hefur sagt af sér embætti heilbrigðisráðherra. Þetta veikir stjórnina verulega.
Það má halda því fram að það sé ekki aðeins líklegt að stjórnin falli heldur sé það nauðsynlegt. Stjórnarflokkarnir virðast svo ósamstíga í mörgum veigamiklum málum að ekki verður við það unað mikið lengur.
Hvað við tekur þá er ekki gott að segja. Áður hef ég talað fyrir því að mynduð verði þjóðstjórn og gekk svo langt að tilnefna, að mínu mati, hæfa einstaklinga í helstu embætti. Líklega ættu hefðbundnir stjórnmálamenn að stíga til hliðar. Þeir virðast ekki getað staðist þá freistingu að láta stjórnast af pólitísku skítkasti.
Þjóðin þarf ekki á því að halda nú.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hugleiðing um samkeppni
26.9.2009 | 00:11
Upp á síðkastið hafa komið fram sjónarmið þess efnis að samkeppni og samkeppnislög séu munaður sem við ekki höfum efni á um þessar mundir. Það jafnvel gefið til kynna að Samkeppniseftirlitið sé fyrirbæri sem við getum verið án.
Þessum sjónarmiðum er ég ósammála. Ég er þeirrar skoðunar að fátt sé eins skaðlegt neytendum og skortur á samkeppni, þar sem hún á við. Samkeppnishugtakið er hins vegar ekki mjög einfalt hugtak og á því margar hliðar. Þannig er t.d. hægt að skilgreina samkeppni út frá ólíkum sjónarhornum. Í grundvallaratriðum er um tvö sjónarhorn að ræða.
Það fyrra er samkeppni skilgreind út frá sjónarhóli atvinnugreinarinnar. Þetta er hefðbundin rekstrarhagfræðileg skilgreining á samkeppni og gengur út á það að fyrirtæki sem eru í sömu atvinnugrein, eru í samkeppni. Þannig er ein myndbandaleiga í samkeppni við aðrar myndabandaleigur, eitt flugfélag í samkeppni við önnur flugfélög og þannig má áfram telja. Samkeppnin er því skilgreind út frá sjónarhóli fyrirtækisins.
Hin nálgunin er að skilgreina samkeppni út frá markaðnum. Þá er sú starfsemi í samkeppni sem fullnægir sömu eða svipuðum þörfum. Þetta er t.d. skilgreining sem markaðsfræðin styðst við. Þá er samkeppnin skilgreind út frá neytendum og miðað við það að ef neytendur hafa val um tvær eða fleiri leiðir til að fullnægja þörfum sínum og löngunum, þá sé til staðar samkeppni.
Það er mikilvægt að stjórnvöld sjái til þess að til staðar sé eðlileg samkeppni. Það er hins vegar jafn mikilvægt að átta sig á því hvenær samkeppni er nauðsynleg og hvenær hún skiptir litlu sem engu máli. Það er t.d. óþarfi að láta samkeppnislög þvælast fyrir eðlilegum aðgerðum í bankakerfinu á meðan að nánast allt bankakerfið er á forræði hins opinbera.
Við slíkar aðstæður þjónar samkeppni afar litlum tilgangi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Framsýnn forseti
23.9.2009 | 23:22
Ég ber mikla virðingu fyrir embætti forseta Íslands. Er t.d. ekki einn af þeim sem telja að leggja eigi þetta embætti niður. Gagnsemi embættisins í alþjóðaviðskiptum var óumdeilt og létu viðskiptajöfrar gjarnan hafa það eftir sér að aðkoma forsetans hafi skipt sköpum við stofnun viðskiptasambanda.
Lítið hefur borið á forseta vorum sl. mánuði, þar til nú. Í viðtali á Bloomberg gerir forseti grein fyrir afstöðu þjóðarinnar (er jú fulltrúi hennar) til þess sem gerðist í aðdraganda efnahagshrunsins. Sérstaklega athygli vekja eftirfarandi ummæli:
Whatever you say about the Icelandic banks, they operated within the framework of the European regulations on banking and finance,
Þetta þykir mér heldur mikil framsýni. Eða hvað? Veit forsetinn eitthvað sem við hin vitum ekki? Er hugsanlegt að þetta verði niðurstaðan eftir allt saman?
Forsetinn ætti að upplýsa forstjóra Fjármálaeftirlitsins, forsætisráðherra og fjármálaráðherra um þessa vitneskju sína. Fólkið í þessum stöðum hefur allt haft nokkuð ákveðin orð í þá átt að bankarnir hafi einmitt ekki farið eftir reglum og lögum.
Sjálfur veit ég ekkert um það. Tel hins vegar mikilvægt að flýta rannsókn þeirra mála sem til skoðunar eru og eiga eftir að koma upp. Það er mikilvægt fyrir viðskipti á Íslandi. Ef niðurstaðan liggur ekki fyrir, þá liggur hún ekki fyrir. Ef niðurstaðan liggur hins vegar fyrir þætti mér eðlilegt að þjóðin þyrfti ekki að lesa um það á Bloomberg
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Magnaður Mogginn!
21.9.2009 | 01:46
Eins og kunnugt er hefur ritstjóra Morgunblaðsins verið sagt upp störfum. Þegar stefna og áhersla eigenda og stjórnanda fara ekki saman er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að eigendur kjósi að skipta um mann í brúnni. Raunar verður að álíta það grundvallar rétt eigenda.
Hver svo stefna og áherslur nýrra eigenda er liggur svo sem ekki fyrir. Ekki heldur hver tilgangur þeirra með reksri blaðsins er. Er hugmyndin eingöngu sú að um verði að ræða vettvang sem skapar tekjur með sölu auglýsinga eða er miðlinum ætlað eitthvert annað og æðra hlutverk?
Mogginn hefur verið til í nokkur ár. Við stofnun virtist sem eigendur hefðu skýra sýn á tilgang og áherslur blaðsins. Til gamans eru hér brot úr ritsjórnarpistli fyrsta tölublaðs Morgunblaðsins sem koma út 2. nóvember 1913.
" Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað. Reykjavíkurbær hefir enn eigi eignast slíkt blað, þó þörfin hafi verið mikil um mörg ár og mörg nauðsynleg skilyrði hafi þegar verið fyrir hendi. Stjórnmálabarátta sú, sem þjóðin hefir átt í síðasta áratuginn, hefir tekið svo mikið rúm í blöðunum, að þeim hefir eigi verið unt að rita um margt hið skemtilega og nýstárlega, sem gerst hefir innanlands og utan. En Morgunblaðið tekur engan þátt í flokkadeilum, þó það auðvitað muni gefa lesendum sínum kost á að kynnast fljótt og greinilega öllu því helzta er gerist í lands- og bæjar málum. Þær fréttir munu ritaðar með öllu litlaust."
Rétt er að taka fram að stafsetning og áherslur eru blaðsins.
Ekki verður annað sagt en að í upphafi hafi eigendur Morgunblaðsins haft skýra mynd af því hvert ætti að vera hlutverk hins nýja blaðs.
Fljótlega ættu núverandi eigendur að setja sína sýn fram með eins skýrum hætti og þá var gert. Það væri gott fyrir okkur lesendur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sá yðar sem syndlaus er...
13.9.2009 | 05:52
Eins og flestum er eflaust kunnugt hefur Magnús Árni Skúlason sagt sig úr bankaráði Seðlabankans í kjölfar ásakana um að hann hafi ætlað að greiða fyrir aflandsviðskiptum með gjaldeyri og vinna þannig gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar með gjaldeyrishöftum. Ásakanirnar virðast koma frá MBL og endurfluttar í fleiri miðlum.
Satt best að segja þykir mér þetta óþarfa viðkvæmni hjá Magnúsi. Það að fjölmiðill kjósi að fjalla um athafnir einstaklinga með sínum hætti er einfaldlega bara eitthvað sem opinber persóna þarf að sætta sig við. Seta í bankaráði Seðlabankans gerir persónuna á vissan hátt opinbera. Þess vegna er mjög mikilvægt að slíkar persónur vandi sig.
Birkir J Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir ákvörðun Magnúsar rétta, en Magnús var fulltrúi Framsóknar í bankaráðinu, og Hallur Magnússon sér sérstaka ástæðu til að hrósa Magnúsi fyrir afsögnina á blogg síðu sinni. Sú færsla endar á orðunum:
Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum!
Getur verið að hér hafi Hallur hitt naglann á höfuðið? Getur verið að allt of margir tengist allt of mörgu sem misjafnt má telja, að nánast útilokað sé fyrir nokkurn mann að taka á málum hér? Getur verið að þeir seku, hverjir svo sem það eru, hafi gætt þess að gera sem flesta þá meðseka sem einhvern tíma í framtíðinni gætu tekið upp á því að gagnrýna þá?
... eða getur verið að við séum bara almennt í ólagi? Hér hafi orðið e.k. siðrof sem geri það að verkum að við erum fullkomlega ófær um að taka á þeim málum sem taka þarf á í tengslum við efnahagshrunið?
... og hvað gera bændur þá?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)