Á milli skips og bryggju
10.9.2009 | 18:14
Fréttir af auðugum Japönum sem komu hingað til lands sl. haust og vildu fjárfesta hefur vakið athygli mína. Þetta voru víst enginn smámenni og höfðu áhuga á að fjárfesta fyrir lítinn milljarð dollara. Það eru rúmir 120 milljarðar ísl. króna. Eitt og annað sem má gera fyrir þá peninga.
Fjármálaráðherra kannaðist hins vegar ekki við málið. Dreg það ekki í efa. En að ástæðan hafi verið sú að erindið hafi fallið milli skips og bryggju finnst mér dálítið undarleg.
Ef 120 milljarðar geta fallið milli skips og bryggju í þessu annars ágæta ráðuneyti, hvað þá með smærri upphæðir og önnur minniháttar mál?
Held að ráðherra, sem alla jafna hefur munninn fyrir neðan nefið, hafi þarna orðið alvarlegur fótaskortur á tungunni.
Svo er það auðvitað til umhugsunar hver það var sem upplýsti ráðherra EKKI um erindið ef þetta var þá eitthvert erindi yfir höfuð.
Bloggar | Breytt 11.9.2009 kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Pólitískur línudans!
7.9.2009 | 13:47
Stjórnmálamenn eru ekki öfundsverðir þessa dagana. Á þeim standa öll spjót og til þess ætlast að stjórnmálamenn komi með varanlegar lausnir á vanda skuldugra fyrirtækja og heimila. Sumum finnst sem að lausnin liggi í augum uppi á meðan að aðrir telja mikilvægt að greina vandann og forgangsraða. Flestir virðast þó komnir á þá skoðun að eitthvað verði að gera í málinu.
Hér er stjórnmálamönnum nokkur vandi á höndum. Það þarf ansi sterk bein, og skilning á eðli máls, til að móta sér ákveðna afstöðu og fylgja henni eftir. Jafnvel þó svo að til óvinsælda verði. Flestir stjórnmálamenn virðast hins vegar óttast almenningsálitið. Umrætt almenningsálit er reyndar ekkert endilega almenningsálit og getur verið t.t.l. þröngur hópur sem lætur hátt í fjölmiðlum eða í bloggheimum. Það þarf ekki að koma á óvart að hagsmunahópar verji hagsmuni sína.
Það er hins vegar til umhugsunar ef stjórnmálamenn láta stjórnast af þrýstingi hagsmunahópa. Að sjálfsögðu telja þessir hagsmunahópar sína hagsmuni mikilvægari en einhverja aðra hagsmuni. Sumum finnst augljóst að fresta eigi vegaframkvæmdum á landsbyggðinni og fella niður skattaafslátt til handa sjómönnum. Þessir sömu aðilar búa þá væntanlega ekki á landsbyggðinni né stunda sjómennsku. Aðrir telja glapræði að ætlast til þess að hagrætt verði í heilbrigðiskerfinu eða menntakerfinu og saka stjórnvöld um skammsýni og árás á grunngildi samfélagsins.
Nú er það hlutverk stjórnmálamanna að taka margar erfiðar ákvarðanir í tengslum við fjárlagagerð næsta árs. Það er mikilvægt að hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi en láta ekki stjórnast eða glepjast af hagsmunagæslu hagsmunahópa.
Þá verður útkoman eins og múlasni. Hvorki hestur né asni og til lítils gagns fyrir eigandann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Drunur vegsældar!
2.9.2009 | 22:26
Maður hefur verið frekar hnugginn síðustu vikur og mánuði. Allt virðist vera í kyrrstöðu og lítið að gerast í atvinnulífi og atvinnuuppbyggingu. Menn gera jafnvel alvarlegar athugasemdir við fjárfestingar útlendinga hér á landi! Það er eins og útlendingar eigi bara að fá að kaupa það sem við höfum ekki áhuga á að eiga.
Vinnustaður minn, Háskóli Íslands, er rétt við flugvöllinn eins og flestir eflaust vita. Árið 2007 kom það gjarnan fyrir að maður þurfti að gera hlé á máli sínu vegna þess að einkaþotur auðmanna, kannski rétt að segja fyrrum, voru ýmist að lenda eða hefja sig til flugs með tilheyrandi hávað og látum. Þessar drunur vegsældar hef ég ekki heyrt lengi.
Í dag varð ég hins vegar vitni af því að einkaþota tók sig á loft með tilheyrandi drunum og hávaða. Ég horfði á vélina og fann fyrir bjartsýni. Frábært! Loksins er eitthvað almennilegt að gerast hér! Nú er þetta allt að koma!
...en svo varð ég kvíðinn!
Bloggar | Breytt 3.9.2009 kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fordekruð meðalmennska!
24.8.2009 | 09:50
Ég er mikill áhugamaður um íþróttir og hef mikla ánægju af því að sjá frábært íþróttafólk keppa sín á milli. Er nánast alæta og hef sérstaklega gaman af að horfa á íþróttir sem eru ekki mikið stundaðar hér á landi.
Eina sem mér leiðist er að horfa á frekar slaka íþróttamenn keppa sín á milli. Stundum finnst mér íslenskur karlafótbolti vera í þessum flokki. Skil satt best að segja ekki það rými sem fótbolti fær í fjölmiðlum. Í dæmigerðum fréttatíma fær maður 3-4, oft alveg ótrúlega ómerkilegar, fótboltafréttir áður en fjallað er um aðrar greinar. Ef það er þá gert. Er t.d. fréttnæmt að Eiður Smári hafi setið á bekknum? Væri það ekki frétt ef hann fengi að spila? Því þarf maður svona nákvæmar upplýsingar um afdrif íslenskra leikmanna í Norsku deildinni? Er það merkilegt?
Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum er umfjöllun MBL 22. ágúst sl. um eldgömul Íslandsmet í frjálsum íþróttum. Hvernig stendur á því að metið í 100 m hlaupi er síðan 1957, í þrístökki frá 1960 og að Clausen bræður séu í 4. sæti í 200 m hlaupi og tugþraut á afrekaskrá FRÍ? Er ekki til umhugsunar að Jón Arnar Magnússon, sem var tugþrautarmaður, skuli eigi einn besta árangur í mörgum greinum þrautarinnar? Svipaða sögu má segja frá öðrum greinum. Þannig er metið í 1500 m hlaupi frá 1982, í maraþoni frá 1985 og í stangarstökki karla frá 1984.
Vissulega voru þetta allt frábærir íþróttamenn en miðað við eðlilega þróun þá ætti að vera búið að slá eitthvað af þessum metum. Vissulega eru ljós í myrkrinu, þá sérstaklega hjá konunum en samt sem áður eru mörg met í kvennaflokki komin við aldur.
En ætli ástæðan fyrir þessu sé sú að á Íslandi séu ekki góð efni í frálsíþróttamenn? Ég tel svo ekki vera. Tel að mistökin sem gerð eru hvað karla varðar séu þau að flestum drengjum er beint í fótbolta á sínum yngri árum. Mjög margir þrífast þar illa og ná litlum árangri. Þegar þeir átta sig á því er það gjarnan of seint til að fara að stunda aðra íþrótt.
Með þessu er oft miklum hæfileikum sóað. Hvaða vit er t.d. í því að 17 ára karlmaður sem er 178 cm á hæð, 85 kg og með 12% fitu sé í fótbolta? Þetta er raunverulegt dæmi. Viðkomandi fann sig ekki og komst ekki í lið enda flestir frábærir fótboltamenn annaðhvort mun minni og léttari eða stærri. Sem betur fer áttaði þessi einstaklingur sig á stöðunni, snéri sér að annarri íþrótt og varð íslandsmeistari í henni í nokkur ár.
Því miður held ég að þessi saga sé nokkuð algeng. Ungmenni er gjarnan send í fótbolta m.a. vegna þess að það er þægilegt og svo virðast allir í hverfinu stunda hann. Ekkert er gert í því að greina hvar hæfileikar einstaklingsins liggja og beina viðkomandi í þá átt. Niðurstaðan er sú að íslenskur karlafótbolti er frekar slakur. Liðin eru allt of mörg miðað við íbúafjölda og greinilega margir að stunda fótbolta sem ættu líklega betur heima í annari íþrótt, s.s. eins og frjálsum. Við erum t.d miklu betri í handbolta en fótbolta en samt er eins og hann sé í öðru sæti á eftir hondum. Það þykir mér hálf fáránlegt.
En hver er þá lærdómurinn af þessu rausi? Jú hann er sá að það er mikilvægt fyrir okkur á Íslandi að átta okkur á því í hverju við erum góð og einbeita okkur að því. Þess vegna er samstarf við aðrar þjóðir mikilvægt. Þær geta þá sinnt því sem við erum síðri í.
Að lokum þetta. Það virðist raunhæfur möguleiki á því að kvennalandsliðið í fótbolta geti unnið til verðlauna á stórmóti á næstu 5-7 árum (tel ofurbjartsýni á að það gerist nú, en áfram Ísland!). Það eru hverfandi líkur fyrir því að karlalandsliðið komist á stórmót. Liggur ekki í augum upp hvað KSÍ á að gera?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Orsök eða afleiðing?
23.8.2009 | 11:32
Ég hef sjaldan fengið eins mikil viðbrögð og við síðasta pistli mínum sem fjallaði um skuldaniðurfellingu.
Sumir virðast álíta að ég sé ekki mannvinur og vilji ekki að fólki sé komið til aðstoðar! Þetta er auðvitaða alrangt. Ég tel mikilvægt að leitað sé leiða til að leiðrétta þau undarlegheit sem átt hafa sér stað í efnahagslífinu.
Ástæðan fyrir því að ég tala gegn almennri niðurfellingu skulda er sú að þá væri verið að rugla saman orsök og afleiðingu. Það eru mjög algeng mistök. Afleiðingar eru eins og sjúkdómseinkenni. Það að ná tökum á sjúkdómseinkennum táknar ekki að maður hafi náð tökum á sjúkdómnum. Verði ekkert meira að gert mun sjúkdómurinn taka sig upp á ný með nýjum eða sömu sjúkdómseinkennum.
Skuldaaukning heimilana er því sjúkdómseinkenni af einhverju öðru. Það að fella niður skuldir og álíta út frá því að búið sé að leysa eitthvert vandamál er misskilningur. Það er mjög mikilvægt að greina orsökina og vinna gegn henni. Að sjálfsögðu á ekki að láta sjúkdómseinkennin afskiptalaus. Tel reyndar að það sé verið að gera eitthvað í þeim. Menn geta svo deilt um það hvort meðferðin sé nægilega góð eða rétt.
En hver er þá orsökin? Líklega ekki einhver ein heldur sambland margra þátta. Eitt af því sem ég hef verið að skoða undanfarin ár er hugtakið KAUPVILJI í eftirspurnarfræðum. Ég tel einfaldlega að ein af orsökum fjárhagsvanda sumra sé of ríkur kaupvilji!
Meira um það síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Niðurfelling skulda!
19.8.2009 | 09:37
Það að stjórnmálamenn skuli aftur vera farnir að tala um það í alvöru að fella niður skuldir heimila er verulega til umhugsunar. Dreg satt best að segja í efa að menn séu að tala í alvöru enda er almenn niðurfelling skulda afar slæm hugmynd að mínu viti.
Það er að sjálfsögðu satt og rétt að sumir eru fórnarlömb efnahagshrunsins og sitja saklausir uppi með skuldir sem þeir töldu sig ekki hafa stofnað til. Þetta er fólk sem tók gengistryggt lán til íbúðarkaupa í góðri trú, og samkvæmt ráðgjöf, um að þetta væri ábyrgur gjörningur.
Það er hins vegar einnig satt og rétt að margt fólk hefur, er og verður afar óábyrgt í fjármálum. Þetta eru einstaklingar sem keyptu sér miklu dýrari eign en þeir höfðu í raun efni á, "hentu" öllu út og endurinnréttuðu samkvæmt nýjustu tísku og straumum og tóku erlent lán fyrir öllu saman.
Það er beinlínis móðgun við sæmilega ábyrgt fólk sem reynir að standa sig að bjóða því upp á þessa hugmynd. Það er einnig undarlegt, ef satt reynist, að fyrirtækjum og fjárfestum bjóðist einhver önnur kjör en skuldugum heimilum.
En hvað er þá til ráða? Ekki er hægt að láta fyrirtækjum og heimilum blæða út hægt og rólega. Hafi menn misst trú á markaðsöflunum, og vilji handstýra efnahagsmálum enn frekar, væri miklu nær að leiðrétta skuldastöðu heimilana með því að fastsetja gengið í einhverri þeirri vísitölu sem menn gerðu ráð fyrir, fyrir u.þ.b. 18 mánuðum síðan. Þá gáfu sumar greiningardeildir bankanna út að gengisvísitalan ætti að vera 150-160 stig. Hún er núna 237 stig! Þetta væri ekki gallalaus aðgerð en ástandið nú er alls ekki gallalaust og hve lengi vont getur versnað áður en það batnar veit ég ekki.
Það er einnig til umhugsunar að nota aðgerðir stjórnvalda gagnvart peningamarkaðssjóðum sem rök fyrir skuldaniðurfellingu. Hvort sem það var góð, slæm, réttlát eða óréttlát aðgerð þá væri þetta eins og að handa góðum peningum á eftir slæmum. Það eru því miður algeng mistök stjórnenda og stjórnvalda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Getur gengið gengið?
17.8.2009 | 09:43
Þrátt fyrir alla mína trú á markaðnum og frelsi í viðskiptum tel ég tímabært að viðurkenna að markaðsöflin ráða mjög illa við gengi íslensku krónunnar. Tel því koma til álita að aftengja hana markaðnum og nota handaflið á ný!
Þetta myndi að sjálfsögðu hafa margvíslega hagræn áhrif í för með sér og sjálfsagt munu einhverjir hagfræðingar súpa kveljur yfir þessari afturhaldssemi. Á móti kemur að öll sú hagfræðiviska sem við höfum notið undanfarin ár gat ekki komið í veg fyrir það ástand sem nú er hér.
Hér áður var gengið fellt reglulega til að koma útflutningsgreinunum til hjálpar. Það var auðvitað gert á kostnað almennings og lífskjara í landinu. Mjög mikið af þeim vandamálum sem steðja að heimilum og atvinnurekstri tengist því að gengisvísitalan er of há. Flestir virðast sammála um það. Nú ættu stjórnvöld að taka sig til og hækka gengi krónunnar og koma gengisvísitölunni í amk. 170 stig. Síðan þarf að vinna markvisst að því að taka upp erlendan gjaldmiðið á einhverju sanngjörnu og eðlilegu skiptigengi og þá þarf að horfa til lífvænleika efnahagslífsins til lengri tíma. Ég tel að eitt af samningsmarkmiðum aðildarviðræðna við ESB eigi að vera að fá að tengja íslensku krónuna við Evru nú þegar.
Hér þarf þó að hafa í huga að veik króna þjónar hagsmunum tiltekinna afla, s.s. útflutningsgreinum og að einhverju leyti fjármálageiranum. Það kann því að vera að það sé engin sérstakur áhugi á að styrkja krónuna næstu mánuði. Það gangi bara ekki að segja það opinberlega.
Spurningin er bara sú hversu lengi á að bjóða almenningu upp á slíkt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ákvarðanafælni!
16.8.2009 | 18:00
Ég hef stundum sagt að hlutverk stjórnenda snúist að miklu leyti um eitt viðfangsefni en það er að taka ákvarðanir. Sumun finnst þetta fullmikil einföldun en ég hef ákveðið að halda mig við þessa skoðun. Hvernig sem er þá er það hlutverk stjórnenda að taka ákvarðanir og að mínu viti er fátt verra í stjórnun en stjórnendur sem virðast ófærir með að taka ákvarðanir.
Vissulega getur verið vandasamt að taka góðar ákvarðanir og mjög mikilvægt er að ákvörðun fylgi framkvæmd. Fyrir margt löngu vann ég við að hjálpa fólki við að koma lagi á eigið líf. Þar var lögð áhersla á þriggja skrefa ferli, að hugsa, taka ákvörðun og framkvæma. Mikilvægt er að það sé jafnvægi á milli þessara þriggja skrefa og ekkert eitt skref er mikilvægara en annað. Ofuráhersla á eitt skref á kostnað hinna er ekki líklegt til árangurs.
Þannig er hægt að eyða mjög miklum tíma í að hugsa um að gera eitthvað. Velta hlutunum lengi fyrir sér en forðast það að taka ákvörðun. Láta hins vegar líta svo út sem verið sé að taka ákvörðun og gera heilmikið í málunum en vera í raun ekki að gera neitt. Þetta er stundum kallað Busy doing nothing! Einnig er hægt að taka vanhugsaðar ákvarðanir og verst af öllu er að framkvæma eitthvað sem er óhugsað, án markmiða og ekki hluti af einhverju heildstæðu plani.
Þetta þykir mér stundum einkenna ástandið nú!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hættulegir stjórnmálamenn?
13.8.2009 | 10:47
Eva Joly er merkileg manneskja. Ég les og hlusta með athygli á það sem frá henni kemur en er ekki endilega sammála öllu. Eva virðist þó hafa munninn fyrir neðan nefið og vera ágætlega tengd sem er eftirsóknarvert í þeirri stöðu sem við erum í nú. Í Fréttablaðinu í dag, bls. 10-11, er fréttaviðtal við Evu. Þar setur hún fram athyglisverða skoðun en í lok greinarinnar er eftirfarandi haft eftir henni:
"Það versta í heiminum eru atvinnustjórnmálamenn, til dæmis fólk sem hefur bara sinnt stjórnmálum í þrjá eða fjóra áratugi. Slíkt fólk er hættulegt".
Svo mörg voru þau orð.
Hér er eitt og annað óljóst hjá Evu (eða blaðamanni). Hvenær verða stjórnmálamenn hættulegir? Er það þegar þeir eru búnir að vera mjög LENGI, eða er það þegar þeir gera EKKERT ANNAÐ en að vera stjórnmálamenn? Eða er það þegar þetta tvennt fer saman? Og hvað þýðir það nákvæmlega þegar stjórnmálamenn eru hættulegir?
Sem betur fer virðist þetta vandamál ekki eiga við hér á landi! Stór hluti þingmanna er á fyrsta eða öðru kjörtímabili sínu. Einhverjir myndu kalla það óheppilegt reynsluleysi.
Ætli það geti verið hættulegt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Villan við viðskiptafræði!
12.8.2009 | 21:30
Í kjölfar efnahagshrunsins hafa komi fram ótrúlegar ranghugmyndir um eðli og viðfangsefni viðskiptafræðinnar. Hefur þetta gengið svo langt að einn og einn hefur látið sér detta í hug að efnahagshrunið hafi verið viðskiptafræðinni og/eða viðskiptafræðingum að kenna! Þetta er alrangt og bera sjónarmið sem þessi vott um alvarlegan þekkingaskort á viðfangsefnum viðskiptafræðinnar.
Vðskiptafræðin er ekki ein grein heldur nokkrar fræðigreinar. Þar undir eru greinar eins og stjórnun, fjármálafræði, reikningshald og endurskoðun, markaðsfræði, rekstrarstjórnun og mannauðsstjórnun. Þetta hefur það í för með sér að viðskiptafræðin er fjölmenn grein og vinsæl og verður það eflaust áfram.
Viðskiptafræðingar fást við rekstur. Sumir í einkageiranum aðrir hjá hinu opinbera. Á meðan við stundum e.k. rekstur verður alltaf þörf fyrir fólk með góða viðskiptafræðimenntun. Viðfangsefnin er ólík og fjölbreytt. Sumir eru framkvæmdastjórar, sumir fjármálastjórar, sumir endurskoðendur og enn aðrir eru markaðsstjórar. Viðfangsefnin krefjast þess að viðkomandi hafi góðan grunn í almennri viðskiptafræði og hafi sérhæft sig í einhverri af hinum fjöldamörgu undirgreinum hennar.
Ég vil því halda því fram að það hefi verið VEGNA viðskiptafræðinnar sem efnahagskerfið hér hrundi heldur miklu heldur vegna SKORTS á góðri viðskiptafræði. Alltof margir hafa verið að vasast í viðskiptum án þess að hafa grundvallarskilning á eðli þeirra. Því sé aldrei eins mikilvægt og nú að kenna fólki góða viðskiptafræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)