Það sem áður var inn er út!

Í byrjun árs 2007 heyrði ég gert góðlátlegt grín að því að hér áður hefðu verið fluttar reglulega fréttir af aflabrögðum skipa og báta. Þetta þótti fólki ótrúlega gamaldags og hallærislegt.

Einhver benti þá á að nú væru fluttar reglulega fréttir af annars konar aflabrögðum, þ.e. þróun vísitalna í hinum ýmsu kauphöllum hingað og þangað um heiminn. Í kvöldfréttum RÚV væri jafnvel gengið svo langt að fréttaþulurinn læsi upp breytingar á þessum vísitölum. Eins og þeir sem á þessum upplýsingum þyrftu á að halda hefðu þær ekki nú þegar. Nei, allar fjölskyldur í landinu skyldu fá að vita af þessum mikilvægu upplýsingum. Taldi sá hinn sami að í framtíðinni myndi verða gert sambærilegt grín að þessum fréttum og gert væri af aflabrögðum skipa og báta. Þetta þótti viðstöddum hálf kjánaleg athugasemd.

En viti menn. Nú er eins umræddar vísitölur hafi bara horfið af yfirborði jarðar og reglulega heyrast fréttir af aflabrögðum skipa og báta eins og þeir hafi tekið upp á þeirri iðju aftur eftir langt hlé.

Fréttir eru hálf undarlegt fyrirbæri. Mér er verulega til efs hversu gagnlegt er að lesa gamlar fréttir til að átta sig á stöðu mála í fortíðinni. Fréttamenn virðast verða fórnarlömb hjarðhegðunar eins og margir aðrir.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig við metum fréttir ársins 2009 og 2010 eftir 2 til 3 ár. Ætli það geti verið að þá sjáum við að fréttaflutningur af líðandi stund hafi verið þröngsýnn og takmarkaður og að augljóst væri að ekki hafi verið fluttar fréttir af því sem raunverulegu máli skipti? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Laxveiði í húnvetnskum ám hefur veri afar góð og hefur met verið slegið í Blöndu. Telja kunnugir að það stafi af jafnrennsli árinnar vegna virkjunar.

Heyskapur hefur gengið vel en þó hefur kal verið í túnum.

Vænleiki dilka er með allra besta móti og horfa bændur björtum augum til framtíðarinnar þrátt fyrir kreppuna en bændum hafa löngum átt nóg lausafé.

Muna ekki elstu bændur eftir jafn mikilli grósku frá móður náttúru.

Hreppaþorrablótið verður haldið um þessa helgi á Blönduósi og er það leikur Húnvetninga, að gera þar grín af hver öðrum.

,, Þetta er Grímur Gíslason sem talar frá Blönduósi".

Þorsteinn H. Gunnarsson, 13.2.2010 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband