Fátæktargildra!

Þegar bankarnir fóru að bjóða upp á allt að 100% lán voru margir sem höfðu efasemdir um ágæti þess. Ég var einn af þeim og gekk ég svo langt að spá því að þessi lán gætu haft þau áhrif að mynda nýja tegund af fátæktargildru. Á þessum tíma var hins vegar ekki alveg "inn" að vera með slíkt röfl og úrtölur.

En hvað átti ég við þegar ég talaði um nýja tegund af fátæktargildru? Það sem ég átti við var að fólk sem alla jafna á að geta átt í sig og á, lendir í þeirri stöðu að festast í húsnæði sem engan veginn hentar því. Tökum dæmi.
Fólk kaupir íbúð á 25 millj. og fær 100% lán. Tíminn líður og það sem við blasir er að íbúðaverð mun eitthvað lækka. Gefum okkur að lækkunin nemi 20% á tveimur árum. Á sama tíma er einhver verðbólga, segum 8-10% á ári. Eftir tvö ár hafa aðstæður breyst og fjólskyldan hefur þörf fyrir stærra húsnæði. Þá er verðmæti íbúðarinnar um 20 millj. en lánið stendur í u.þ.b. 30 millj. Fjölskyldan hefur því á tveimur árum farið úr þeirri stöðu að eiga ekki neitt í að skulda um 10 millj.

Þessi þróun var því miður mjög svo fyrirsjáanleg. Mjög mikið framboð af fjármagni til íbúðakaupa hlaut að hafa þau áhrif að íbúðaverð myndi hækka mikið og að sú hækkun myndi ganga til baka að miklu eða öllu leyti. Það sem var hins vegar ekki alveg eins fyrirsjáanlegt á þessum tíma var hið algera hrun bankanna sem nú er staðreynd. Ekki hefur það  verið til að bæta þá stöðu sem að framan er lýst.

Félagsmálaráðherra hefur gefið til kynna að veita eigi fólki í greiðsluerfiðleikum e.k. aðstoð. Það er göfugt og líklega skynsamlegt þar sem það getur vart talist þjóðhagslega hagkvæmt að halda fólki í hálfgerði ánauð í "eigin" íbúð. Því er nauðsynlegt að grípa til einhverra aðgerða sem leysa vandann. Þær aðgerðir eru hins vegar ekki augljósar. Á t.d. að hjálpa öllum eða bara sumum? Á t.d. aðeins að aðstoða fólk sem tók myntkörfulán en ekki þeim sem tóku verðtryggt lán? Á aðeins að hjálpa þeim sem eru í vanskilum en ekki þeim sem hafa lagt allt kapp á að standa í skilum? Svo þarf væntanlega að taka tillit til þess að ekki hafa allir hagað sér skynsamlega í sínum fjármálum. Sumir tóku t.d. íbúðalán til að greiða niður uppsafnaðar neysluskuldir og aðrir tóku slíkt lán til að kaupa sér bíl eða endurnýja innbúið og eða innréttingar.

Og hvað með ábyrgð lánveitanda? Er hún engin? Er í lagi að lána hverjum sem er svo fremi að einhver eftirspurn er eftir láninu? Er t.d. eitthvert vit í því að lána barni pening sem hefur litlar sem engar tekjur? Er ekki miklu nær að gefa barninu peninginn ef það þarf á annað borð á honum að halda?

Að sjálfsögðu þurfa lánveitendur að taka þátt í því að leysa vandann. Þannig má t.d. færa fyrir því rök að lán fylgi því sem keypt er, en ekki kennitölu þess sem hlutinn kaupir. Ef það væri þannig þá gæti fólk einfaldlega skilað inn bíl sem það sér ekki fram á að geta greitt af. Tapar þannig því  fé sem það átti þegar bíllinn var keyptur, lánveitandinn leysir til sín bílinn og verður af vaxtatekjum. Getur hins vegar selt bílinn síðar og náð þannig einhverju af láninu til baka. Með þessu fyrirkomulagi myndu menn væntanlega vanda sig betur í lánaferlinu og taka ábyrgð á því að það er ekkert í lagi að lána einhverjum fjármagn bara af því að sá eða sú sækist eftir því.

Sama lausn gæti gengið á íbúðamarkaði. Það væri hugsanleg lausn að Íbúðalánasjóður leysti til sín þær íbúðir þar sem lán er komið upp fyrir markaðsverð og "eigendunum" gefinn kostur á því að búa í þeim áfram gegn sanngjarnri leigu. Sumir myndi tapa einhverju en aðrir, sérstaklega þeir sem tóku 100% lán, myndi ekki tapa neinu af þeirri einföldu ástæðu að þeir áttu ekkert þegar til kaupanna var stofnað. Þetta fólk fær hins vegar frelsi til að velja um að búa áfram í íbúðinni eða gera eitthvað annað. Eins og staðan er nú er það hins vegar ekki hægt.

Þetta er það sem ég kalla nýja tegund af fátæktargildru, þ.e. að venjulegt fólk með ágæt meðallaun eru fangar í húsnæði sem hugsanlega hentar ekki og eða það getur ekki og mun ekki geta staðið í skilum. Þetta þarf að leysa svo fólk, stundum kallað mannauður, geti farið að einbeita sér að einhverju öðru en fjárhagsáhyggjum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband