Óábyrg fréttaumfjöllun!

Eins og alþjóð væntanlega hefur áttað sig á hefur verið skrifað undir samkomulag um IceSave deiluna. Sama alþjóð virðist alls ekki átta sig á því hvað það hefur í för með sér, enda varla von þar sem upplýsingar um málið eru mjög takmarkaðar.

Sem fyrrum stjórnandi úr atvinnulífinu þá átta ég mig á því að stundum þurfa upplýsingar að vera takmarkaðar. Fyrir því eru ýmsar góðar og gildar ástæður. Ég hef ákveðið að treysta því í þessu tilviki. Viðurkenni að ég botna satt best að segja ekkert í málinu og myndi aldrei fara að tjá mig um kosti eða galla samkomulagsins með svo takmarkaðar upplýsingar.

Frétta- og dagskrárgerðarfólk hafa, eins og von er, mikinn áhuga á að fá upplýsingar um málið. Þannig hafa þau dregið til sín hvern sérfræðinginn af öðrum til að útskýra fyrir þjóðinni hvað í samkomulaginu fellst. Allir eiga sérfræðingarnir það sameiginlegt að tala um takmarkaðar upplýsingar en sumir láta það ekkert hindra sig í að tjá sig um ágæti samkomulagsins. Þar fer þetta ágæta fólk út af sporinu, þ.e. sérfræðingssporinu. Tjá sig gjarnan fjálglega um galla samkomulagsins, hve það sé óábyrgt og hvað sé verið að fara illa með þjóðina. Þarna breytist viðkomandi úr sérfræðingi sem kallaður er til til að fjalla um tiltekið mál, sem ekki allir hafa yfirsýn yfir, í einstakling sem hefur skoðun á einhverju máli.

Auðvitað má fólk hafa skoðanir. Skárra væri það nú. Það er hins vegar mikilvægt að gera greinarmun á því hvort um er að ræða sérfræðiálit eða skoðun einstaklings.

Það hefur einnig vakið athygli mína hvað sumt dagskrárgerðarfólk hefur sterkar skoðanir á málinu. Stundum svo sterkar að viðmælandinn kemst ekki að. Er það hlutverk dagskrárgerðarfólks eða fréttamanna að vera stöðugt að koma eigin skoðunum á framfæri? Ég held ekki. Þetta fólk gegnir mikilvægu hlutverki varðandi það að draga fram ólík sjónarmið og skoðanir annarra.  Ættu að einbeita sér að því.

...en svo öllu sé til haga haldið þá er ég hund fúll yfir IceSave málinu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband